Vanhirða, raki og sveppir herja á skólastarf
'}}

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Síðustu vikur hafa verið að birtast fréttir af heilsuspillandi rakaskemmdum í reykvískum grunnskólum. Það eru alvarleg tíðindi. En það vekur einnig óhug að slíkum tilfellum hefur fjölgað nokkuð að undaförnu – rétt eins og einhvers konar myglufaraldur sé í uppsiglingu á þeim stöðum sem mygla ætti einna síst að fá að grassera.

Frístundamiðstöðvar

Húsnæði þriggja frístundamiðstöðva borgarinnar hefur verið ónothæft vegna myglu. Börn í frístundamiðstöðinni Kringlumýri og í frístundamiðstöðinni Miðbergi í Gerðubergi, þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði miðstöðvanna og starfsfólk frístundamiðstöðvarinnar í Gufunesbæ hefur þurft að hafast við í gámum. Auk þess er húsnæði frístundamiðstöðvarinnar Ársels í Árbænum nú til skoðunar og fastlega búist við að þar á bæ sé ástandið engu skárra.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir frá framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvanna um varanlegar lausnir á húsnæðisvanda þessara miðstöðva, virðast borgaryfirvöld ekkert hafa aðhafst.

Fossvogsskóli

Í gær var Fossvogsskóla lokað vegna myglu en nemendur skólans munu sækja nám sitt í húsnæði í Kópavogi. Fulltrúi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafði farið í reglubundið eftitlit í skólann í nóvember sl., þar sem húsnæðið var skoðað með tilliti til viðhalds og innivistar. Niðurstöður þess eftirlits gáfu engan veginn til kynna það alvarlega ástand sem húsnæðið var þá í. Nánast það sama er að segja um úttekt sem gerð var af Mannviti. Það var ekki fyrr en með úttekt Verkís að heilsuspillandi ástand húsnæðisins kom í ljós. Það er fyrst og fremst að þakka áverkni og ábyrgð staðfasts foreldris að ástandið varð uppvíst.

Breiðholtsskóli

Í fimm ár hefur borgaryfirvöldum verið það full ljóst að fara þyrfti í mikið viðhald á Breiðholtsskóla. Á borgarráðsfundi 7. febrúar 2013, var samþykkt tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gerð yrði úttekt á ástandi Breiðholtsskóla, einkum með tilliti til hugsanlegra rakaskemmda. Sérstaklega var óskað eftir könnun á því hvort myglusveppur leyndist á rakasvæðum og hvort myndast hefðu heilsuspillandi aðstæður.

Í niðurstöðu úttektarkönnunarinnar frá því í mars 2014 var hvergi getið um myglusvepp. En hún leiddi þó í ljós að fara þyrfti yfir alla veggi utanhúss. klæða þyrfti barnaálmu með loftræstri klæðningu og að asfalt dúkur á þökum lak víða. Lagt var til að varið yrði 260 milljónum, á þáverandi verðlagi, í bráðnauðsynlegt viðhald og endurbætur. Á fundi borgarráðs í mars 2014 var hins vegar ákveðið að verja einungis 152 milljónum til viðhalds á húsnæði skólans, lagfæringu lóðar, raflagna og endurnýjun búnaðar.

Vanhirða – raki - sveppir

Þetta hálfunna verk er nú að koma í bakið á borgarbúum með stórauknum kostnaði. Aldrei var komist fyrir rætur vandans. Nú er komið í ljós að rakaþétting hefur gefið sig á steyptum útvegg við skólann, en það leiðir til rakaskemda sem eru kjöraðstæður fyrir myglusvepp. Ábyrgðin liggur hjá borgaryfirvöldum, rask á skólastarfi og önnur óþægindi hjá nemendum og starfsfólki en kostnaðurinn hjá borgarbúum.

Aðstæður við Breiðholtsskóla eru nú litlu skárri en við Fossvogsskóla. Starfsfólki hefur verið gert að gangast undir myglupróf, færa hefur þurft bekki þvers og kruss milli kennslustofa og hluta skólans hefur verið lokað vegna heilsuspillandi aðstæðna. Enn er óljóst hver heildarkostnaður verður við sómasamlegar endurbætur. Loks á svo eftir að koma í ljós hvort myglusveppur herjar á Ártúnsskóla. Má mikið vera ef þar er ekki enn ein mygluplágan.

Sama gamla ábyrgðarleysið

Hér er þörf markvissra og fumlausra viðbragða. Endurskoða þarf alla verklagsþætti er varða úttektir á skólahúsnæði borgarinnar, gera ítarlega úttekt á öllu slíku húsnæði og setja fram raunhæfa áætlun um sómasamlegar endurbætur og viðhald. Samkvæmt tölum um nemendafjölda skólaárið 2017 voru 374 nemendur í Fossvogsskóla, 390 nemendur í Breiðholtsskóla og 189 nemendur í Ártúnsskóla. Þetta eru samtals 953 nemendur. Sé nemendum frístundamiðstöðva bætt við eru þetta á annað þúsund nemendur í Reykjavík sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir þessari langvarandi vanhirðu á skólahúsnæði reykvískra barna. Einhvern tíma hefði nú einhverjum fundist að það rask á skólastarfi í Reykjavík sem hér um ræðir, þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið af útektaraðilum og sú vanhirða sem borgaryfirvöld hafa sýnt, hljóti að gefa tilefni til þess að sjálfur, háttvirtur borgarstjórinn, komi fram í fjölmiðlum og biðjist velvirðingar á þessu ófremdarástandi. En hann er líklega ekki maður til þess, frekar en fyrri daginn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2019.