Metmæting í Mosfellsbæ
'}}

Metmæting var á fundi með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ í hádeginu í dag. Á annað hundrað fundarmenn mættu til fundarins – en heimamenn muna vart eftir annarri eins mætingu á fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins í bænum.

Fundurinn sem er hluti af hringferð þingflokksins var haldinn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Boðið var upp á dýrindis íslenska kjötsúpu og setið var þétt í salnum þar sem þingmenn dreifðu sér einn og einn á borðin og tóku spjall um öll þau málefni sem fundarmenn vildu ræða.

Fjölmörg mál komu til umræðu á fundinum, m.a. umferðaröryggismál, Sundabraut, innflutningur á hráu kjöti, ljósleiðaramál, menntamál, umhverfismál og margt fleira.

Fundurinn var líflegur og skemmtilegur líkt og mannamót á vegum Sjálfstæðisflokksins alla jafnan og mæltist fundaformið afar vel fyrir. Fundurinn markaði ákveðin tímamót í hringferðinni enda er Mosfellsbær 40. viðkomustaður þingflokksins í hringferðinni sem hófst sunnudaginn 10. febrúar sl. Enn á þingflokkurinn fyrir höndum á annan tug viðkomustaða fram í byrjun apríl þegar hringferðinni lýkur með fundi í Vestmannaeyjum.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.