Tryggjum raunhæfar innanlandssamgöngur
'}}

Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins:

Öflugt innanlandsflug er forsenda þess að tengja allt landið við heilbrigðisþjónustuna, menntastofnanir, stjórnsýsluna, menninguna og samfélagið allt ásamt því að dreifa ferðamönnum um landið. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu um ,,Uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna“ sem skilað var til samgönguráðherra í byrjun desember og kynnt í umhverfis- og samgöngunefnd.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar tók undir tillögu starfshópsins um eflingu innalandsflugs og lagði til breytingu á kafla 4.5 í samgönguáætlun um markmið um jákvæða byggðaþróun í samgönguáætlun til næstu fimm ára þess efnis að unnið verði að útfærslu þess að niðurgreiða flugfargjöld íbúa á landsbyggðinni. Meiri hlutinn benti á að með þessu verður greitt fyrir aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að þjónustu sem eingöngu er veitt á höfuðborgarsvæðinu.

Það kemur undirrituðum því á óvart að í skýrslunni „Ferðumst saman“ séu tillögur um að draga úr stuðningi við að halda uppi flugi til Hornafjarðar, Vopnafjarðar og Þórshafnar.

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra kynnti skýrsluna fyrir skömmu en hún var unnin af starfshópi embættismanna úr ráðuneytinu og Vegagerðinni.  Starfshópurinn safnaði saman upplýsingum um almenningssamgöngur í víðu samhengi og átti samráð við aðila sem virðist eiga að nýta í gerð stefnu ríkisins í almenningssamgöngum.

Fram kemur í skýrslunni að samfélagslegt markmið stjórnvalda sé efling lífsgæða með heildarstefnu um almenningssamgöngur sem hefur það að leiðarljósi að allir hafi aðgang að skilvirku og heildstæðu almenningssamgöngukerfi með tengingu byggða og aukinni þjónustu. Með því er verið að greiða fyrir atvinnu- og skólasókn og tryggja aðgengi að opinberri þjónustu í nærumhverfi sem og á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er í fullu samræmi við það sem kemur fram í samstarfssamningi ríkistjórnarflokkana þar sem er lögð áhersla á almenningssamgöngur, en þar segir m.a. að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um allt land og gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa. Þetta er líka í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var samþykkt í júní síðastliðnum.

Við erum sannfærðir um mikilvægi flugsins og að samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur aukinna flugsamgangna sem og allra samgangna sé það mikill að frekar ætti að gefa í en draga úr. Ríkisframlög til innanlandsflugs er aðeins 390 milljónir króna sem skilar gríðarlegum ávinningi. Með því að auka við þetta framlag getum við á hagkvæman hátt skapað aukin lífsgæði, sterkara atvinnulíf og öflugra samfélag.  Við viljum benda á að samgönguáætlun með fyrrgreindum breytingum er samþykkt af Alþingi en ofangreind skýrsla hefur ekki komið til umræðu á Alþingi og er nú í samráðsgátt stjórnvalda sem má nálgast á www.samradsgatt.is

Þegar samgönguáætlun var til meðferðar á Alþingi kom skýrt fram í máli fulltrúa sveitarfélaganna hversu mikilvægt innanlandsflugið er og hversu mikilvægt það er hinum dreifðu byggðum.

Við tökum undir þau sjónarmið. Sameinumst um að byggja upp og tryggja raunhæfar almenningsamgöngur til og frá höfuðborginni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2019.