Hinar eilífu hræringar með skólabörn í Grafarvogi
'}}

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Sjaldan er ein báran stök þegar kemur að skólamálum í hverfinu okkar. Sameiningar hafa verið á öllum skólastigum, þ.e. leik- og grunnskólum. Það virðist hreinlega ekki skipta máli hver vilji foreldra og íbúa er í þeim efnum, enda  hingað til hefur engin hlustað. Í þessu samhengi nægir að nefna sameiningu leikskólana Hamra og Bakka sem keyrð var í gegn þvert á vilja íbúa fyrir tveimur árum síðan eða árið 2017.

Núna eru aftur uppi stór áform um breytingar. Jafnvel þau stórtækustu sem við, íbúar í Grafarvogi, höfum séð. Hugmyndirnar snúa að því  að loka Kelduskóla Korpu og sameina starfsemi Kelduskóla Vík við Vættaskóla Engi og Vættaskóla Borgir. Þetta felur í sér mikið rask fyrir börnin okkar enda ekki útséð um í hvaða skóla börnin okkar lenda í milli þessara þriggja skóla.

Það snertir alla íbúa Grafarvogs þegar verið er að leggja niður skóla í heilu hverfi. Fleiri spurningar en svör vöknuðu upp eftir opinn fund í Vættaskóla Engjum í dag enda mjög margar spurningar sem reyndist erfitt að fá svör við. Það er ekki laust við að maður spyrji sig hvað fólki gengur til þegar verið er að bjóða börnunum okkar og samfélaginu upp á slíka óvissu.

Ég vil því hvetja ykkur öll til þess að mæta á opinn fund sem  haldin er í dag 5.mars um sameiningar þessara skóla. Fundurinn mun fara fram í Kelduskóla Vík kl. 18:00. Fundurinn sem var því miður lítið auglýstur er öllum opinn.

Sameiningarsaga skóla í Grafarvogi hefur verið ein sorgarsaga. Stöndum vörð um þá grunnþjónustu sem sveitarfélögum ber skylda til þess að veita og mætum sem flest.

Greinin birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu 5. mars 2019.