Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra sat í gær og í dag árlegan fund norrænna íhaldsleiðtoga sem að þessu sinni var haldinn í Helsinki.
Formennirnir ræddu uppgang öfga- og popúlistaflokka í Evrópu og sameiginlega afstöðu til að verja norræn gildi gagnvart málflutningi slíkra afla. Einnig voru til umræðu breytingar á pólitísku landslagi þar sem flokkum hefur fjölgað mjög á þjóðþingunum.
Pólitísk og efnahagsleg áhrif útgöngu Breta úr ESB voru á dagskrá fundarins, sem og fjölþætt öryggismál og ógnir í tengslum við heimsókn formannanna í Hybrid CoE – The European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats sem er samstarfsverkefni ríkja sem eiga aðild að ESB eða NATO.
Formönnum íhaldsflokka í Eystrasaltslöndunum var einnig boðið til fundarins, en hann sóttu formenn íhaldsflokka í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Litháen og Lettlandi, auk Íslands. Formaður danska íhaldsflokksins sótti ekki fundinn af öryggisástæðum heima fyrir.