Þingflokkurinn í Uppsveitum Árnessýslu
'}}

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins átti góða ferð um Uppsveitir Árnessýslu í dag þar sem vinnustaðir voru heimsóttir.

Byrjað var í Efstadal í Bláskógabyggð þar sem þingmenn fengu kynningu á fyrirtækinu, en þar er rekin ferðaþjónusta, mjólkur- og kjötframleiðsla og hestaleiga. Afurðir býlisins, ís, kjöt, skyr og mysa eru seldar beint frá býli en fjórða kynslóð ábúenda er nú tekin við rekstrinum. Heilsárs starfsemi hófst á veitingahlutanum árið 2013 og er nú rekin heilsárs ferðaþjónusta í Efstadal.

Hluti þingflokksins á Espiflöt í Biskupstungum.

Næst var stoppað á Espiflöt og Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum og fengin kynning á framleiðslunni þar.

Á Espiflöt sérhæfa garðyrkjubændur sig í framleiðslu afskorinna blóma og var mikið um að vera í dag enda konudagurinn á sunnudag. Þar er nú þriðja kynslóð ábúenda komin að rekstri garðyrkjustöðvarinnar en hún var upphaflega stofnuð árið 1948.

Í Friðheimum er rekið veitingahús, tómatarækt og hestatengd ferðaþjónusta allt árið um kring, en það var árið 2011 sem veitingareksturinn varð að heilsárs starfsemi. Nú getur fólk heimsótt gróðurhúsin þar sem um 10.000 tómataplöntur má finna. Þar er einnig 20 hesta hesthús og áhorfendastúka sem tekur um 120 gesti á hestasýningum yfir sumarið.

Eftir Reykholt heimsótti þingflokkurinn Varmaorku sem rekur jarðvarmavirkjun í landi Kópsvatns í Hrunamannahreppi, en þar er virkjuð jarðhitahola sem gefur 116 gráðu heitt vatn. Orkan úr virkjuninni er svo nýtt í heimabyggð.

Þingflokkurinn heimsótti einnig Gömlu laugina á Flúðum, eða Secret Lagoon og fékk þar kynningu á starfseminni. Laugin var upphaflega byggð árið 1891 en það var fyrir nokkrum árum sem laugin var endurbætt og aðstaða byggð upp eftir að eigendur hættu rekstri á gróðurhúsum sem stóðu við laugina. Töluverður jarðvarmi er á Flúðum og helst laugin 38-40 gráðu heit allt árið um kring. Nú er rekin heilsárs ferðaþjónusta í lauginni og mikill straumur ferðamanna þangað dag hvern, enda mikið aðdráttarafl.

Hluti þingflokksins í Varmaorku við Flúðir.

Þingflokkurinn heimsótti Gömlu laugina á Flúðum.

Frá Friðheimum.

Þingflokkurinn í Efstadal ásamt rekstraraðilum og sveitarstjóra og oddvita Bláskógabyggðar.