„Eitt af því sem ég brenn fyrir er það stóra sameiginlega verkefni okkar stjórnmálanna, atvinnulífsins og samfélagsins alls að auka samkeppnishæfni Íslands. Af hverju ættum við að vilja það? Vegna þess að með því styrkjum við hagkerfi Íslands. Við aukum stöðugleika og verðmætasköpun sem leiðir af sér aukin lífsgæði fyrir alla borgara í landinu,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær.
Unnur Brá sat á Alþingi árin 2009-2017, þar af sem forseti Alþingis árið 2017, en hún tók í gær sæti á þingi í forföllum Ásmundar Friðrikssonar.
„Atvinnulífið okkar verður fjölbreyttara. Allt þetta samanlagt leiðir til þess að ungt fólk sem er að velja sér hvar í heiminum það ætlar að búa er líklegra til að velja sér búsetustað á Íslandi. Það viljum við að sjálfsögðu styðja við,“ sagði Unnur Brá.
Hún sagði okkur þurfa að búa nýsköpun og nýsköpunarfyrirtækjum umhverfi á heimsmælikvarða.
„Við þurfum að standa að uppbyggingu innviða og bæta starfsskilyrði fyrirtækja þannig að ekki verði of flókið fyrir fyrirtækin að velja sér búsetustað á Íslandi. Stöðugleiki er mikilvægur til þess að við getum aukið samkeppnishæfni Íslands og það er akkúrat það sem sú ríkisstjórn sem hér starfar býður upp á. Ég fagna því að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á,“ sagði Unnur í ræðu sinni.