Skattbyrði fólks á aldrinum 18-34 ára, öryrkja, eldri borgara, þeirra sem ekki eiga húsnæði og þeirra sem þiggja húsnæðisstuðning mun lækka um 2 prósentustig verði fyrirætlanir stjórnvalda um breytingar á skattkerfinu samþykktar.
Þetta kynnti Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í gær, en breytingarnar eru í samræmi vð yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar 2018.
Skv. tillögunum verður nýju neðsta skattþrepi bætt við og fjárhæðum til lækkunar skatta beint til lægri millitekju- og lágtekjuhópa. Ríkisstjórnin hefur á kjörtímabilinu stefnt að því að minnka álögur og líta til jafnaðar. Gert er ráð fyrir að breytingarnar komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2020-2022.
Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins segir: „Gert er ráð fyrir að tekjuáhrif skattkerfisbreytinganna nemi um 14,7 milljörðum króna. Hækkun barnabóta 2019 nemur 1,6 ma.kr. og hækkun persónuafsláttar umfram verðlag 1,7 ma.kr. Alls nema því tillögur stjórnvalda í tekjuskatti og barnabótum 18. ma.kr.“
Tillögur að breyttum skattþrepum, skatthlutfalli, persónuafslætti og skattleysismörkum:
- Þrep 1. Skatthlutfall 32,94% þ.a. tekjuskattur 18,5% og meðalútsvar 14,44%.
- Þrep 2. Skatthlutfall 36,94% þ.a. tekjuskattur 22,5% og meðalútsvar 14,44%.
- Þrep 3. Skatthlutfall 46,24% þ.a. tekjuskattur 31,8% og meðalútsvar 14,44%.
Persónuafsláttur verði 56.477 kr. á mánuði eða 677.358 kr. á ári. Skattleysismörk verði 159.174 kr. á mánuði m.v. frádrátt 4% lífeyrisiðgjalda.
Frétt fjármálaráðuneytisins má í heild sinni finna hér.