Góður dagur hjá þingflokknum á Norðurlandi vestra
'}}

Menntamál, málefni heilsugæslunnar, ljósleiðaramál, raforkuöryggi, öldrunarmál, Ríkisútvarpið, veggjöld, málefni sauðfjárræktarinnar, samgöngumál, sjávarútvegsmál, innviðamál og málefni erlendra námsmanna á Íslandi voru mál málanna á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins síðdegis í dag í Félagsheimilinu Ljósheimum í Skagafirði. Vel var mætt á fundinn og sköpuðust góðar og uppbyggjandi umræður um málefni líðandi stundar.

Fundurinn var annar fundurinn í ferð þingflokksins um landið sem hófst í dag. Fyrsta degi ferðarinnar var varið í heimsóknir í Norðvesturkjördæmi, en áður var fundað á Laugarbakka í Húnaþingi vestra.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á Blönduósi.

Á milli funda heimsótti þingflokkurinn bæjarskrifstofurnar á Blönduósi. Þar fræddu forsvarsmenn sveitarfélagsins þingflokkinn um helstu málefni svæðisins auk þess sem uppbygging á gagnaveri Borealis Data Center var kynnt, en gagnaverið er hið stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Þá heimsótti þingflokkurinn Spákonuhof á Skagaströnd og fékk þar kynningu á starfseminni og hitti oddvita sveitarfélagsins.

Næstu daga mun þingflokkurinn vera á ferðinni um Norðausturkjördæmi og síðan Suðurkjördæmi.

Frá Spákonuhofi á Skagatrönd.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast allur saman í kjördæmi landsins í kjördæmaviku Alþingis. Þingflokkurinn mun í ferð sinni heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir. Lagt er upp með að fundir þingflokksins séu óformlegri en áður og lögð áhersla á spjall við heimamenn um það sem skiptir máli.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.

Frá fundi þingflokksins í Skagafirði.

Frá fundi þingflokksins í Skagafirði.

Frá fundi þingflokksins í Skagafirði.

Frá fundi þingflokksins í Skagafirði.