„Það hefur verið magnað að sjá byggðarþróunar verkefni okkar í Mangochi héraði, þar hefur verið unnið frábært starf sem aðstoðar hverfi að gera sig sjálfbær með skólum, fæðingarþjónustum, heilsugæslum og vatnsbrunnum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sem er þessa dagana á ferðalagi í Malaví.
Ferðin er skipulögð af Unicef og fleiri aðilum í þróunarsamvinnu þar í landi, Global Fund to Fight AIDS, Tuberculosis and Malaria, Gavi-Alþjóðasamtök um bólusetningu barna, og Bill &Melinda Gates Foundation.
Áslaug Arna tekur þátt í ferðinni fyrir hönd utanríkismálanefndar Alþingis, en auk fulltrúa Alþingis taka danskir og sænskir þingmenn þátt í heimsókninni.
Þátttakendur munu eiga fundi með fulltrúum stjórnvalda í Malaví og kynna sér þróunarstarf í landinu, einkum á heilbrigðissviðinu. Meðal annars munu þingmennirnir kynna sér átak í bólusetningu barna, aðgerðir til að koma í veg fyrir HIV-smit og meðhöndlun smitaðra, baráttu gegn berklum og malaríu, og mæðravernd og umönnun barna í heilbrigðiskerfinu.
Hluta heimsóknarinnar til Malaví verður varið í að skoða íslensk verkefni á vettvangi í Mangochi héraði, þar á meðal skóla, heilsugæslustöðvar og vatnsveitur.
Malaví er annað af tveimur tvíhliða samstarfsríkjum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Á síðasta ári námu framlög Íslands til Malaví um 875 m.kr. eða 11% af heildarframlagi Íslands til þróunarsamvinnu.
Í þessum mánuði tilkynnti utanríkisráðuneytið um 120 milljóna króna framlag til að herða á bólusetningum malavískra barna, en framlagið verður nýtt á næstu þremur árum. Fyrir þá fjárhæð verður hægt að bólusetja hundruð þúsunda barna í landinu gegn öllum helstu banvænu sjúkdómum, en styrkurinn rennur til GAVI samtakanna, alþjóðasamtaka um bólusetningar barna. Sjá nánar hér á vef ráðuneytisins.
Hægt er að fylgjast með ferðalagi Áslaugar Örnu á Instagram @aslaugarna
Meðfylgjandi myndir eru teknar í ferðinni og rétt að fram komi að þær eru allar teknar með leyfi viðkomandi.