„Þannig verðum við í fararbroddi breytinganna“
'}}

„Við stöndum á næstu árum og áratugum frammi fyrir gífurlegum breytingum á atvinnuháttum vegna þeirra fjölbreyttu tæknibreytinga sem saman eru nefndar fjórða iðnbyltingin,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunaráðherra í sérstakri umræðu um munnlega skýrslu forsætisráðherra um stöðuna í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan sem fór fram á Alþingi í gær.

„Sumir málsmetandi hugsuðir ganga svo langt að spá því að af þessum sökum sé í vændum stórkostlegt atvinnuleysi og meiri stéttaskipting en áður hefur þekkst í mannlegu samfélagi. Ekkert samfélag getur staðið gegn þessum breytingum með því að byggja múra í kringum sig eða horfast ekki í augu við breytingarnar og ekki vera tilbúin að vinna samkvæmt því. Valkostirnir eru að verða undir öldunni eða búa sig undir hana, lyfta sér upp á henni og láta hana bera samfélagið áfram til aukinnar velmegunar,“ sagði ráðherra.

Hún sagði þetta eingöngu verða gert með því að efla menntun, nýsköpun, vernd hugverkaréttinda og fjárfestingu.

„Þannig verðum við í fararbroddi breytinganna, getum séð þær fyrir og búið okkur undir þær. Nýsköpun er […] lífsnauðsynleg fyrir öll samfélög á öllum sviðum. Mótun nýsköpunarstefnu stendur yfir og hún mun gegna lykilhlutverki við að varða veginn í þessum efnum. Stóraukinn stuðningur við rannsóknar- og þróunarverkefni í atvinnulífinu er líka mikil tímamót,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði að eins krefjandi og verkefni samtímans væru teldi hún að þegar frá liði yrði núverandi ríkisstjórn ekki síst dæmd af því hvernig henni muni takast að búa okkur undir breytta framtíð.

„Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að við séum á réttri leið og má segja að það sé a.m.k. minn tilgangur í þessari ríkisstjórn þrátt fyrir að ýmsir haldi því fram að tilgangurinn sé enginn,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Ráðherra ræddi stjórnarsamstarfið og sagði það hafa einkennst af trausti, virðingu og góðri samvinnu sem hafi getið af sér sameiginlega sýn á mörg af brýnustu viðfangsefnum okkar.

„Á þessum sterka grunni hefur stjórnin afgreitt fjölmörg framfaramál og mun með sama áframhaldi uppfylla sinn metnaðarfulla stjórnarsáttmála,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Skuldir ríkissjóðs skattar á framtíðina

Þórdís Kolbrún benti á að skuldir ríkissjóðs væru ekkert annað en skattar á framtíðina.

„Skuldir ríkissjóðs frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu um 90 milljarða, þ.e. 10 milljónir á klukkutíma. Frá ársbyrjun 2013 hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður um 660 milljarða. Gert er ráð fyrir að þær fari á þessu ári í fyrsta sinn undir viðmið laga um opinber fjármál og að vaxtagjöld verði af þeim sökum um 34 milljörðum lægri en þau voru árið 2012. Það jafngildir u.þ.b. 20% af öllum greiddum tekjuskatti árið 2018,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Hún benti á að í tvennum fjárlögum núverandi ríkisstjórnar hafi framlög til innviða og samfélagslegra verkefna verið aukin um u.þ.b. 80 milljarða.

„Þetta er hægt núna eftir grundvöllinn sem lagður var árin á undan. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og þeir fara í verkefni sem almenningur mun finna fyrir með áþreifanlegum hætti. Átak í vegaframkvæmdum, veruleg hækkun barnabóta, sérstaklega hjá þeim tekjulægri, hækkun vaxtabóta umfram verðlag, efling löggæslu, efling heilbrigðiskerfisins, verndun íslenskrar tungu, uppbygging innviða á ferðamannastöðum, aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun og þannig mætti lengi telja,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þá nefndi hún að samhliða auknum útgjöldum hafi tryggingagjald verið lækkað og persónuafsláttur hækkaður. Þannig mætist ólíkar áherslur um aukin útgjöld og lægri skatta.

„Einkaframtakið búi við hagfelld skilyrði“

„Það segir sig sjálft að við getum ekki sett fé í ný verkefni ásamt því að lækka skatta nema tvennt komi til, í fyrsta lagi að einkaframtakið búi við hagfelld skilyrði til að skapa meiri verðmæti og stækka þannig kökuna sem er til skiptanna og í öðru lagi að við séum tilbúin til að lækka útgjöld á einhverjum sviðum í stað þess að beita okkur eingöngu fyrir sífelldum hækkunum á öllum sviðum,“ sagði ráðherra.

Hún sagði lykilatriði fyrir aukna verðmætasköpun að atvinnulífið geti staðið undir þeim kjörum sem samið verði um í komandi kjarasamningum.

„Við þekkjum það of vel af fenginni reynslu að launahækkanir sem efnahagslífið stendur ekki undir hverfa jafnskjótt í verðbólgu. Á undanförnum árum hefur gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar átt drjúgan þátt í að halda aftur af verðbólgu með því að styðja við gengi krónunnar. Nú hefur vöxturinn í ferðaþjónustu minnkað verulega. Það þýðir að varnarveggurinn gegn verðbólgu er ekki lengur til staðar í sama mæli. Staðan er því viðkvæmari en áður og það skiptir máli, og það er í allra þágu, að verja árangurinn sem náðst hefur,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Ræðu Þórdísar Kolbrúnar í heild má finna hér.