Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði í vikunni með Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands í Síldarminjasafninu á Siglufirði.
Finnski ráðherrann var staddur hér á landi í vinnuheimsókn og skv. frétt á vef utanríkisráðuneytisins kynnti hanns ér atvinnulíf og starfsemi fyrirtækja á Tröllaskaga í heimsókn sinni.
Á fundi ráðherranna voru tvíhliða samskipti Íslands og Finnlands, málefni norðurslóða, Norðurlandasamstarfið, Evrópumál og öryggis- og varnarmál á meðal umræðuefna.
Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnlandi í maí.
Í ferðinni norður sóttu ráðherrarnir málþing í Háskólanum á Akureyri um norðurslóðir. Var þar gerð grein fyrir því starfi sem HA og stofnanir á Akureyri inna af hendi. Ávarpaði Guðlaugur Þór málþingið og gerði grein fyrir undirbúningi Íslands fyrir formennsku í Norðurskautsráðinu. Í máli hans kom fram að meginþema verði sjálfbærni í efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu tilliti. Þá kom einni fram að áherslu verði beint að hafinu, umhverfisvænum orkulausnum og að styrkja samfélög á norðurslóðum.
Sjá nánar hér í frétt á vef utanríkisráðuneytisins.