„Ég fékk þau svör að svona væri þetta, allir hefðu fengið uppreist æru sem uppfylltu skilyrðin og jafnvel fyrir verri brot en þessi. Ekki væri hægt að víkja frá fyrri framkvæmd í þessu. Ég kallaði því eftir ítarlegri skoðun á þessum málum og lýsti þeirri skoðun minni að ástæða væri til að endurskoða hegningarlögin að þessu leyti, þ.e. afnema úr lögum heimild til að veita uppreist æru,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í ítarlegu viðtali við Þjóðmál og fjallar þar um mál sem tengdist uppreist æru og var mikið rætt í fjölmiðlum sumarið 2017.
Í viðtalinu fjallar ráðherra þó um mörg fleiri mál, m.a. landsréttarmálið, jafnréttismál, umhverfismál og fleira. Nálgast má nethluta viðtalsins hér.
„Þarna spila þó stjórnsýslulögin hlutverk því þau kalla á það að sambærileg mál fái sambærilega meðferð, jafnræðisreglan. En þegar löggjafinn hefur kveðið skýrt á um að það þurfi að leggja mat á hluti í hvert og eitt sinn, þá getur það ekki verið þannig að öll mál séu sjálfkrafa afgreidd á grundvelli jafnræðisreglunnar,“ segir Sigríður í viðtalinu.
Hún hafi bent á þetta og því neitað að skrifa undir skjalið. Hún hafi talið eðlilegt að löggjafi tæki afstöðu til þess hvort hann vildi hafa þetta úrræði áfram inni.
„Ég hefði alveg treyst mér til þess að taka afstöðu til veitingar uppreist æru í hvert og eitt sinn en tel hins vegar ekki heppilegt að ráðherra sé að setja sig inn í hvert og eitt mál og ljóst að stjórnsýslan ætlaði sér ekki að gera það. Þá taldi ég farsælast að þingið tæki afstöðu til þess hvort afnema ætti þessa heimild úr lögum og þá kom í ljós eins og ég lagði til að menn vildu það. Nú er verið að laga löggjöfina að því,“ segir Sigríður.