Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Um áramót er við hæfi að horfa yfir farinn veg; rifja upp það sem liðið ár gaf en um leið setja sér markmið um það sem gera má betur. Því vil ég nýta þennan tímapunkt til að fara yfir helstu verkefni þessa árs er snúa að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum en í kjölfarið horfa til þeirra tækifæra sem nýtt ár felur í sér.
Traustari álagning veiðigjalds
Eitt helsta verkefni þess árs þegar að kemur að sjávarútvegi var að lagfæra þá flóknu og óstöðugu gjaldtöku sem íslenskur sjávarútvegur hefur búið við síðastliðin ár. Afrakstur þeirrar vinnu kom fram á Alþingi í september þegar að ég lagði fram frumvarp um veiðigjald. Frumvarpið var samþykkt í desember og tekur hið nýja kerfi við álagningu og innheimtu veiðigjalds gildi strax eftir áramót. Með því verður álagning gjaldsins færð nær í tíma þannig að gjaldtakan sé meira í takt við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt er stjórnsýsla með álagningu veiðigjalds gerð einfaldari, skilvirkari og áreiðanlegri.
Matvælastefna fyrir Ísland
Í ágúst var sett á fót verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Ég hef þá trú að afrakstur þessarar vinnu verði grunnur þeirrar sóknar sem við ætlum okkur í íslenskri matvælaframleiðslu enda mikil tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Matvælastefnan mun liggja fyrir í árslok 2019.
Einföldum regluverks
Eitt af forgangsverkefnum þessa árs, og verður áfram, er að tryggja að íslensk matvælaframleiðsla búi við einfalt og skilvirkt eftirlit. Við munum stíga markverð skref í þá veru á komandi ári.
Endurskoðun sauðfjársamnings
Endurskoðun búvörusamninga stendur yfir. Í febrúar sl. skipaði ég samráðshóp um endurskoðun þeirra en þar eiga sæti fulltrúar neytenda, stjórnvalda, bænda, afurðastöðva og atvinnulífs. Vegna þeirrar stöðu sem blasir við sauðfjárræktinni beindi ég þeim tilmælum til samráðshópsins í lok mars að hraða vinnu varðandi samninginn um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Hópurinn skilaði tillögum sínum í byrjun júlí og hófust formlegar samningaviðræður ríkisins og bænda í ágúst. Þær viðræður eru nú langt komnar. Ég bind vonir við að afrakstur þeirra viðræðna muni fela í sér meira frelsi til handa bændum til að nýta stuðningsgreiðslur til fjölbreyttari starfsemi en áður. Að okkur takist að skapa þessari mikilvægu atvinnugrein þær forsendur að hún verði sjálfstæð og samkeppnishæf þannig að greinin geti nýtt tækifæri framtíðarinnar – bændum og neytendum til heilla.
Nýtt hafrannsóknaskip
Samhljóða ákvörðun Alþingis í sumar um að hafin verði smíði hafrannsóknaskips markar tímamót í hafrannsóknum Íslendinga. Það var sérstaklega ánægjulegt að tekist hafi þverpólitískt samkomulag um þessa ákvörðun þegar hún var afgreidd á Þingvöllum í tilefni hundrað ára afmælis fullveldis Íslands. Þessi tímasetning var sérstaklega viðeigandi enda lagði öflugur sjávarútvegur grunn að lífskjörum þjóðarinnar og þar með fullveldinu. Ákvörðun Alþingis er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að efla hafrannsóknir líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með því er verið að styrkja stöðu Íslands sem fiskveiðiþjóðar enda eru öflugar hafrannsóknir nauðsynleg undirstaða verðmætasköpunar í sjávarútvegi.
Fjölbreytt og krefjandi verkefni fram undan
Á nýju ári blasa við fjölmörg tækifæri og áskoranir. Ég vil nefna nokkur mál sem verða í brennidepli í mínu ráðuneyti:
- Endurskoðun búvörusamninga
- Átak í upprunamerkingum matvæla
- Ráðstafanir til að bregðast við dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins um innflutning á fersku kjöti
- Efling hafrannsókna
- Frumvarp til að styrkja lagaumhverfi fiskeldis
- Frumvarp um gjaldtöku vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó
- Endurskoðun aflareglna í sjávarútvegi
- Mótun matvælastefnu fyrir Ísland
- Endurskoðun á fyrirkomulagi á úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara
- Einföldun regluverks
- Endurskoðun á fyrirkomulagi þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir
- Breytingar til að styrkja traust og skilvirkt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni
- Endurskoðun á veiðistjórnun makrílveiða
Eitt af skemmtilegri verkefnum þessa árs var að fara tvær fundarferðir um landið í haust þar sem ég fékk tækifæri til að hitta um 1300 manns á 20 fundum um sjávarútvegsmál og stöðu sauðfjárræktar. Það er einstakt að upplifa kraftinn og eldmóðinn sem býr í fólki og fyrirtækjum hringinn í kringum landið og sjá tækifærin til frekari sóknar íslenskrar matvælaframleiðslu sem blasa við. Því geng ég bjartsýnn til þeirra verka sem bíða okkar á komandi ári.
Ég þakka fyrir árið 2018 og óska ykkur öllum gæfu og gengis á árinu 2019.