Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Þó það eigi eftir að kaupa seinustu gjafirnar, þrífa eldhússkápana og það hafi farist fyrir að senda jólakortin í ár þá er engin ástæða til að örvænta. Jólin koma alltaf á sama tíma, sama hvort okkur finnst við vera tilbúin til að taka á móti þeim eða ekki. Stressið og álagið er óþarfi, stundum er best að geta horft i gegnum fingur sér og enn mikilvægara er nýta tímann til að sinna þeim sem standa manni næst. Stærstu pakkarnir, tandurhrein gólf eða nýjasti jólakjóllinn er ekki mælikvarði á vellíðan yfir hátíðarnar.
Það er hægt að segja margt um jólin og þann tíma sem nú fer í hönd. Burtséð frá aðstæðum hvers og eins eigum við það flest sameiginlegt að nýta tímann í þessari síðustu viku ársins til að horfa yfir árið. Við reynum að meta það sem vel var gert, allar minningarnar með okkar nánustu, hvaða áföngum við náðum og síðast en ekki síst reynum við að meta hvað við getum gert betur á næsta ári. Allt er þetta persónubundið, markmiðin mismunandi og þannig mætti áfram telja.
Við eigum það þó flest sameiginlegt að vilja búa í friðsamlegu og vingjarnlegu samfélagi. Við viljum hafa góðan anda í samfélaginu, eins og stundum er sagt. Það er eitthvað sem við getum öll unnið að. Við getum við ósammála um ýmislegt en á sama tíma virt rétt allra til að hafa ólíkar skoðanir, við höfum ólík markmið en óskum þess samt að náunginn nái sínum markmiðum og þrátt fyrir að það skyggi stundum á í lífum okkar vonum við að aðrir sjái birtuna í sínu lífi.
Ég hef á þessu ári haft mikil tækifæri til að ferðast víða um landið. Fyrir utan það að njóta náttúrufegurðar landsins er mér dýrmætast að eiga samfélag við annað fólk, alls staðar að af landinu. Burtséð frá öllum þeim málum sem rædd eru á vettvangi stjórnmálanna þá eiga flestir það sameiginlegt að vilja eiga þess kost að sjá fyrir sér og sínum, að búa börnum sínum vel í haginn, að búa við öryggi og fyrst og fremst í samfélagi þar sem fólki er mætt af hlýju og kærleika. Þetta er vissulega einföld mynd af flóknum veruleika, en engu að síður ágætis áminning fyrir okkur stjórnmálamenn að vita að stjórnmál eru ekki alltaf efst í huga almennings.
Við munum áfram hafa ólíkar skoðanir og áfram verða einhverjir sem njóta sín best í því að ala á sundrung og óánægju. En við getum tekist á með málefnalegum hætti, af virðingu fyrir náunganum og þannig lagt okkar af mörkum til að búa til góðan anda í samfélaginu. Það getur ýmislegt komið upp á lífinu, við förum í gegnum alls konar hindranir og áskoranir – en með gleði, jákvæðni og bjartsýni leggjum við öll okkar af mörkum við að búa til gott samfélag. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2018.