Óli Björn Kárason alþingismaður:
„Hvað djúpt sem við hugsum fáum við í raun og veru ekkert svar við öllum spurningum okkar, en vert er þó að hafa í huga hvílík reginvilla það er að vera trúlaus á handleiðslu hins góða, sem við hljótum að trúa að sé til og það jafnvel í okkur sjálfum, ef vel er að gáð.“
Þannig komst Björn Jónsson – Björn í Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði (1902-1989) – að orði í ítarlegu viðtali við Árna Johnsen í Morgunblaðinu í desember 1982. Björn sem fagnaði 80 ára afmæli sínu, var trúaður maður. Í hans huga var kærleikurinn grunnur alls hins góða:
„Ef ég reyni að skýra viðhorf mitt til Guðs, sem í alheimi býr og þá trú sem ég vesæll maður vill hafa, þá er auðsvarað að kærleikann tel ég grundvöll að öllu því góða sem við eigum að tileinka okkur í daglegu líferni, því að kærleikurinn er hinn sanni Guð í alheimi og það besta í okkur sjálfum.
Í flestum tilfellum er kærleikurinn fyrsta kenndin sem barnið skynjar, það er til móður sinnar, og út lífið er það þessi guðdómlega kennd, sem er undirstaða alls góðs.“
Líklega hefur Björn tekið undir þegar séra Valdimar Briem, vígslubiskup, orti:
Það engin er dyggð þótt þú elskir þá heitt
sem ástríki mesta þér veita.
Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt
þá síst má það kærleikur heita.
Ósætti vekur vanlíðan
Björn var einn af máttarstólpum Skagafjarðar. Búfræðingur, íþróttakennari og bóndi. Einn af stofnendum ungmennafélagsins, fjallskilastjóri um árabil og hreppstjóri í áratugi. Hann lét til sín taka í ýmsum félagsmálum og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir samferðamenn sína. Björn var fréttaritari Morgunblaðsins vel á sjötta áratug. Hann var sjálfstæðismaður sem í hans huga þýddi einfaldlega að „vera sjálfstæður í hugsun og gerðum, fyrst og fremst það“. Hann hafði annars „misjafnt“ álit á stjórnmálum en taldi að fyrsta skilyrði fyrir eðlilegri framþróun væri að menn fyndu sáttaleið og bæru gæfu til að vinna saman að framfaramálum.„
Ég hef oft tekið eftir því að ósætti við aðra vekur vanlíðan, en sáttarorðið er vellíðan. Eitt sinn heyrði ég að afi minn hafi sagt að ósætti og hatur væri djöfullegt, en fyrirgefning og vinátta guðdómleg. Þetta voru spakmæli hins lífsreynda manns, sem gat verið harður og óvæginn þegar því var að skipta, en sáttfús strax og hann hafði snúið baki við andstæðingi.“
Eitthvað segir mér að Björn í Bæ yrði ósáttur við stjórnmál samtímans og þjóðmálaumræðuna. „Samskipti okkar og viðhorf til þeirra, sem við kynnumst og þurfum að vinna með, verður að byggjast á vináttu ef vel á til að takast um árangur verkanna,“ sagði Björn í áðurnefndu viðtali. Hann hefði aldrei skilið þá sem kalla samferðamenn sína „fávita“ og „asna“ eða segja þeim sem er á annarri skoðun að „éta skít“. Björn hefði illa þrifist í andrúmslofti þar sem dylgjur og aðdróttanir eru hluti af pólitískri baráttu, þar sem lagt hefur verið til atlögu við kristin gildi og borgaralega hugsun.
Trúin tortryggð
Í samfélagi nútímans hefur trúin verið tortryggð. Við sem tökum undir með þjóðskáldinu og trúum á tvennt í heimi; Guð í alheimsgeimi og Guð í okkur sjálfum, erum sögð einfeldningar og af sumum jafnvel hættuleg.
Í hraða nútímans er sú hætta fyrir hendi að við tökum upp siði Bakkabræðra sem töldu sig geta bjargað gluggaleysi með því að bera sólarljósið inn í bæinn. Í predikun í Hallgrímskirkju á öðrum degi jóla árið 2002 velti herra Sigurbjörn Einarsson biskup því fyrir sér af hverju kristin trú ætti undir högg að sækja:
„Maður nútímans á erfitt með að skilja að það sé einhvers virði sem ekki þarf að kaupa eða klófesta. Hann getur svo mikið sjálfur. Er það ekki þess vegna sem kristin trú er svo lítils metin af mörgum? Hún er rétt eins og sólin, sem bara gefur geislana sína og heimtar ekkert annað en að fá að lýsa og verma og gefa líf.“Bakkabræður höfðu takmarkalausa trú á „handaflinu eða tækninni, blinda trú á það, að allt yrði gripið, hrifsað, en gleymdu því, að það sem mestu skiptir verða menn að hafa auðmýkt til að þiggja blátt áfram,“ sagði Sigurbjörn Einarsson:
„Maður hvorki kaupir né gleypir sólina en hún skín inn á mann, ef glugginn gleymist ekki. Maður gómar ekki hamingju sína eða lífslán sitt með neinum tæknibrögðum eða fjármunum, þar er allt komið undir því að hafa gluggann í lagi eða hjartað opið og þiggja. Og láta svo aftur í té eitthvað úr þeim sjóði, sem hjartað þiggur.“
Hvorki peningar eða tækninýjungar, sem við erum svo fljót að koma í okkar þjónustu, tryggja hamingju eða lífsfyllingu. Enginn kaupir eða gleypir sólina – hjartað getur ekki tekið á móti ljósinu ef glugginn er lokaður eða gleymist líkt og hjá Bakkabræðrum.
Þegar jólahátíðin gengur í garð er gott að vita að „það er ýmislegt, sem Guð áskilur sér að gefa, bara gefa“. En um leið skulum við hafa orð herra Sigurbjarnar í huga:
„Trúin sem við eigum, kristnir menn, hún er ekkert að miklast af, hún er ekkert annað en að við viljum lofa Guði að lýsa á gluggann, inn í hjartað.“
Ég óska lesendum Morgunblaðsins og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2018.