Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Á þessu ári, þegar þjóðin fagnar því að hundrað ár eru liðin frá því hún öðlaðist fullveldi, hefur mikið verið fjallað um aðstæður samfélagsins á fullveldisárinu 1918. Þá riðu yfir þrenns konar áföll eða harðindi; spænska veikin, eitt stærsta Kötlugos síðan land byggðist og frostaveturinn mikli. Velta má fyrir sér hver áhrif sambærilegra áfalla yrðu á mun tæknivæddara og flóknara samfélag nútímans. Mikill kostnaður gæti hlotist af slíkum ófyrirséðum stóráföllum, en enginn sérstakur fjárhagslegur viðbúnaður er nú fyrir hendi til að mæta þeim, fyrir utan Náttúruhamfaratryggingar Íslands.
Skýr ásetningur um að koma þjóðarsjóði á fót kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem undirritaður var fyrir ári, en frumvarp þess efnis hefur nú verið lagt fram á Alþingi.
Forsaga frumvarpsins
Málið á sér nokkurn aðdraganda en í febrúar 2017 skipaði ég sérfræðingahóp sem samkvæmt erindisbréfi var falið að semja drög að frumvarpi til laga um það sem var nefnt stöðugleikasjóður. Hópurinn skilaði drögum að frumvarpi sumarið 2018 sem áfram var unnið með í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Frumvarpið, sem ég hef nú lagt fyrir Alþingi, er afrakstur þeirrar vinnu.
Að baki þjóðarsjóði býr sú hugsun að nýta beri góð ár og hagstæð skilyrði í þjóðarbúskapnum til að sýna fyrirhyggju og ábyrgð í ríkisfjármálum og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.
Margur kann að spyrja hvort ekki væri nær, í stað sjóðssöfnunar, að beina fyrst sjónum að skuldum ríkissjóðs og lífeyrisskuldbindingum. Þar ber að líta til þess að á næsta ári fer ríkissjóður undir skuldaviðmið laga um opinber fjármál. Vaxtabyrði af lánum er nú að verða sambærileg og var fyrir fall bankanna. Að öðru óbreyttu verða möguleikar ríkissjóðs til frekari niðurgreiðslu skulda takmarkaðir, þar sem þær nálgast þá lágmarksskuldsetningu sem þarf til að viðhalda virkum skuldabréfamarkaði.
Með ráðstöfunum í lífeyrismálum eru horfur á því að áður en langt um líður verði Ísland, eitt örfárra ríkja í heiminum, með traustar áætlanir um fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Að auki er fyrirséð að arður af orkuauð-lindum á forræði ríkisins vaxi verulega á næstu árum.
Það er við þessar um margt einstæðu aðstæður sem tillaga að stofnun þjóðarsjóðs er lögð fram á Alþingi.
Því sjónarmiði hefur loks verið hreyft að horfur um auknar arðgreiðslur af orkuauðlindum eigi fremur að nýta til að lækka skatta en til sjóðssöfnunar. Skattar á Íslandi eru vissulega tiltölulega háir í alþjóðlegum samanburði, en svigrúm til skattalækkana mun áfram vera til staðar, óháð þjóðarsjóði. Einkum ef tekst að auka framleiðni, bæði í einkageiranum og hinum opinbera, og leggja áherslu á betri nýtingu opinberra útgjalda.
Þá er til þess að líta að ekki er fullvissa um auknar tekjur af orkufyrirtækjum til langs tíma litið og því ekki æskilegt að nýta þær eins og hefðbundna tekjustofna til að standa undir auknum ríkisútgjöldum eða sem forsendu fyrir lækkun skatttekna, auk þess sem fjárhagslegur viðbúnaður til að mæta stóráföllum yrði lakari fyrir vikið.
Áfallavörn fyrir þjóðina
Þjóðarsjóður er hugsaður sem eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir meiriháttar ófyrirséðri fjárhagslegri ágjöf, vegna afkomubrests eða kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. Fjármunum sjóðsins verður einvörðungu varið til fjárfestinga erlendis, sem er til þess fallið að dreifa fjárhagsáhættu þjóðarbúsins og varna því að sjóðurinn hafi bein áhrif á einstakar innlendar atvinnugreinar og fyrirtæki.
Það fer vel á því að frumvarp um þjóðarsjóð sé rætt á Alþingi á 100 ára afmæli fullveldis Íslands og í beinu framhaldi af endurreisn efnahagslífsins eftir eitt stærsta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa þurft að takast á við.
Stofnun sjóðsins endurspeglar aga í meðferð fjármuna ríkisins og er til marks um breytta og betri tíma. Sjálfbærni opinberra fjármála styrkist, sem er til þess fallið að auka traust á íslensku hagkerfi og þjóðarbúskap og þar með efla lánshæfi Íslands.
Allir þessir þættir eru til hagsbóta til lengri tíma litið fyrir okkur öll, fyrir komandi kynslóðir og velferð þjóðarinnar í víðu samhengi.
Þjóðarsjóður er fyrir framtíðina.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2018.