Óli Björn Kárason alþingismaður:
Útgjöld til heilbrigðismála námu alls 187,6 milljörðum króna samkvæmt fjárlögum síðasta árs. Á næsta ári verða þau liðlega 214 milljarðar samkvæmt fjárlögum sem samþykkt voru síðastliðinn föstudag. Þetta er hækkun um 26,5 milljarða eða 14%. Til félags-, húsnæðis- og tryggingamála fara nær 203 milljarðar á næsta ári sem er hækkun um 23,2 milljarða frá síðasta ári. Þetta er nær 13% hækkun.
Samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum verða rammasett útgjöld ríkisins um 731,3 milljarðar króna á komandi ári og hækka um liðlega 34 milljarða. (Með rammasettum útgjöldum er átt við frumútgjöld að frádregnum fjármagnskostnaði, lífeyrisskuldbindingum, atvinnuleysisbótum og framlagi í jöfnunarsjóð sveitarfélaga.) Frá fjárlögum 2017 er hækkunin nær 81 milljarður eða 12%. Á tveimur árum aukast útgjöldin því um 927 þúsund krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
26 milljarða skattahækkun
Þeir eru til sem telja þessa miklu aukningu útgjalda ríkissjóðs ekki nægjanlega. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd lagði til við aðra umræðu að slegið yrði enn fastar í klárinn. Útgjöld skyldu hækka um 24 milljarða til viðbótar 34 milljarða hækkun frá yfirstandandi ári. Og ekki stendur á fjármögnun útgjalda enda Samfylkingar á því að „tekjuúrræði“ ríkissjóðs séu vannýtt: „Í fjárlagafrumvarpinu eru enn vannýtt tekjuúrræði, svo sem hækkun fjármagnstekjuskatts, álagning auðlegðarskatts, auknar tekjur af erlendum ferðamönnum og aukin auðlindagjöld,“ segir í nefndaráliti Samfylkingarinnar um fjárlagafrumvarpið sem nú er orðið að lögum. Þar er boðaður sykurskattur, tillaga sett fram um enn hærri kolefnisgjöld og að afnema skuli samsköttun hjóna og sambýlisfólks, sem eykur álögur um 2,7 milljarða á ári.
„Sé einungis litið til fyrrgreindra hugmynda um auknar tekjur ríkisins væri hægt að auka ríkistekjur um 26 milljarða kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu,“ segir í nefndarálitinu.
Það eru himinn og haf milli skoðana þess sem hér skrifar og hugmyndafræði Samfylkingarinnar. Í umræðum um fjárlögin 15. nóvember síðastliðinn sagði ég að mér líði „stundum eins og það sé farið að verða sérstakt markmið að auka ríkisútgjöld, svona til að við hér getum klappað hvert öðru á bakið, það sé orðinn sérstakur mælikvarði á árangur okkar á þingi hversu mikið við aukum ríkisútgjöld:
Við veltum því ekki mikið fyrir okkur hvaða gæði eða hvaða þjónustu við erum að fá fyrir þá fjármuni sem við leggjum fram, sem eru sameiginlegir fjármunir okkar allra. Það er nefnilega ágætt að við minnum okkur á það hér, a.m.k. af og til, að við erum að sýsla með fjármuni launafólks og fyrirtækja. Það er eðlilegt að almenningur geri þá kröfu að við a.m.k. verjum þessum fjármunum af eins mikilli skynsemi og við getum og fáum eins mikið og hægt er fyrir þá fjármuni.“
Þegar hvatt er til að hófsemdar sé gætt við álagningu skatta og gjalda á einstaklinga og fyrirtæki tala Samfylkingar og pólitískir fylgihnettir um vannýtt tekjutækifæri ríkissjóðs, afsal tekna, getuleysi við að afla tekna og eftirgjöf líkt og ríkið eigi tilkall til alls þess sem launafólk og fyrirtæki afla.
Sterk staða ríkissjóðs
Þrátt fyrir gríðarlega hækkun útgjalda er staða ríkissjóðs sterk og gefur tækifæri til að lækka álögur á komandi árum. Hrein staða er um 653 milljarðar eða 23% af vergri landsframleiðslu. Skuldir ríkisins halda áfram að lækka. Fyrir unga fólkið er þetta sérstakt gleðiefni. Við erum hætt að út lífskjör komandi kynslóða í formi skuldasöfnunar. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp.
Tækifærin til að létta álögum verða nýtt á næsta ári, þótt vissulega finnist mér hægt ganga. Tryggingagjald verður lækkað um fjóra milljarða og alls átta milljarða árið eftir. Persónuafsláttur verður hækkaður um 1% umfram lögbundna hækkun, sem lækkar tekjuskatt um 2,2 milljarða en á móti kemur breyttur útreikningur á efra þrepi tekjuskatts, sem eykur tekjur um 500 milljónir. Eftir stendur nettó skattalækkun. Þá hækka barnabætur um nær tvo milljarða eða 14% að raungildi og vaxtabætur um 400 milljónir.
Þetta eru skref í rétta átt en nú er unnið á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins að tillögum um breytt tekjuskattskerfi samhliða uppstokkun á barnabótum og húsnæðisstuðningi.
Rauður þráður
Síðustu mánuði og misseri hefur rauði þráðurinn í málflutningi mínum, jafnt á þingi sem annars staðar verið einfaldur; ekki er forsvaranlegt að ganga lengra í aukningu ríkisútgjalda að öðru óbreyttu. Verkefnið á komandi árum er að nýta sameiginlega fjármuni betur og skynsamlegar. Gera kröfur til þeirra sem fara með opinbera fjármuni og er treyst til þess að reka opinberar stofnanir – allt frá skólum til heilbrigðisstofnana – að fara með þá fjármuni af skynsemi og veita okkur þá þjónustu sem við ætlumst til og greitt hefur verið fyrir.
Um 81 milljarðs króna aukning útgjalda á næsta ári frá 2017 er til lítils ef þjónusta ríkisins verður ekki betri og öflugri. Þegar hver fjögurra manna fjölskylda horfir á útgjöldin hækka um 927 þúsund krónur er það eðlileg krafa. Annars verða ríkisútgjöldin aldrei nægjanlega mikil.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2018.