Hvenær verða útgjöld nægjanlega mikil?
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Útgjöld til heil­brigðismála námu alls 187,6 millj­örðum króna sam­kvæmt fjár­lög­um síðasta árs. Á næsta ári verða þau liðlega 214 millj­arðar sam­kvæmt fjár­lög­um sem samþykkt voru síðastliðinn föstu­dag. Þetta er hækk­un um 26,5 millj­arða eða 14%. Til fé­lags-, hús­næðis- og trygg­inga­mála fara nær 203 millj­arðar á næsta ári sem er hækk­un um 23,2 millj­arða frá síðasta ári. Þetta er nær 13% hækk­un.

Sam­kvæmt ný­samþykkt­um fjár­lög­um verða ramma­sett út­gjöld rík­is­ins um 731,3 millj­arðar króna á kom­andi ári og hækka um liðlega 34 millj­arða. (Með ramma­sett­um út­gjöld­um er átt við frumút­gjöld að frá­dregn­um fjár­magns­kostnaði, líf­eyr­is­skuld­bind­ing­um, at­vinnu­leys­is­bót­um og fram­lagi í jöfn­un­ar­sjóð sveit­ar­fé­laga.) Frá fjár­lög­um 2017 er hækk­un­in nær 81 millj­arður eða 12%. Á tveim­ur árum aukast út­gjöld­in því um 927 þúsund krón­ur á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu.

26 millj­arða skatta­hækk­un

Þeir eru til sem telja þessa miklu aukn­ingu út­gjalda rík­is­sjóðs ekki nægj­an­lega. Full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í fjár­laga­nefnd lagði til við aðra umræðu að slegið yrði enn fast­ar í klár­inn. Útgjöld skyldu hækka um 24 millj­arða til viðbót­ar 34 millj­arða hækk­un frá yf­ir­stand­andi ári. Og ekki stend­ur á fjár­mögn­un út­gjalda enda Sam­fylk­ing­ar á því að „tekju­úr­ræði“ rík­is­sjóðs séu vannýtt: „Í fjár­laga­frum­varp­inu eru enn vannýtt tekju­úr­ræði, svo sem hækk­un fjár­magn­s­tekju­skatts, álagn­ing auðlegðarskatts, aukn­ar tekj­ur af er­lend­um ferðamönn­um og auk­in auðlinda­gjöld,“ seg­ir í nefndaráliti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um fjár­laga­frum­varpið sem nú er orðið að lög­um. Þar er boðaður syk­ur­skatt­ur, til­laga sett fram um enn hærri kol­efn­is­gjöld og að af­nema skuli sam­skött­un hjóna og sam­býl­is­fólks, sem eyk­ur álög­ur um 2,7 millj­arða á ári.

„Sé ein­ung­is litið til fyrr­greindra hug­mynda um aukn­ar tekj­ur rík­is­ins væri hægt að auka rík­is­tekj­ur um 26 millj­arða kr. um­fram það sem gert er ráð fyr­ir í fjár­laga­frum­varp­inu,“ seg­ir í nefndarálit­inu.

Það eru him­inn og haf milli skoðana þess sem hér skrif­ar og hug­mynda­fræði Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Í umræðum um fjár­lög­in 15. nóv­em­ber síðastliðinn sagði ég að mér líði „stund­um eins og það sé farið að verða sér­stakt mark­mið að auka rík­is­út­gjöld, svona til að við hér get­um klappað hvert öðru á bakið, það sé orðinn sér­stak­ur mæli­kv­arði á ár­ang­ur okk­ar á þingi hversu mikið við auk­um rík­is­út­gjöld:

Við velt­um því ekki mikið fyr­ir okk­ur hvaða gæði eða hvaða þjón­ustu við erum að fá fyr­ir þá fjár­muni sem við leggj­um fram, sem eru sam­eig­in­leg­ir fjár­mun­ir okk­ar allra. Það er nefni­lega ágætt að við minn­um okk­ur á það hér, a.m.k. af og til, að við erum að sýsla með fjár­muni launa­fólks og fyr­ir­tækja. Það er eðli­legt að al­menn­ing­ur geri þá kröfu að við a.m.k. verj­um þess­um fjár­mun­um af eins mik­illi skyn­semi og við get­um og fáum eins mikið og hægt er fyr­ir þá fjár­muni.“

Þegar hvatt er til að hóf­semd­ar sé gætt við álagn­ingu skatta og gjalda á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki tala Sam­fylk­ing­ar og póli­tísk­ir fylgi­hnett­ir um vannýtt tekju­tæki­færi rík­is­sjóðs, af­sal tekna, getu­leysi við að afla tekna og eft­ir­gjöf líkt og ríkið eigi til­kall til alls þess sem launa­fólk og fyr­ir­tæki afla.

Sterk staða rík­is­sjóðs

Þrátt fyr­ir gríðarlega hækk­un út­gjalda er staða rík­is­sjóðs sterk og gef­ur tæki­færi til að lækka álög­ur á kom­andi árum. Hrein staða er um 653 millj­arðar eða 23% af vergri lands­fram­leiðslu. Skuld­ir rík­is­ins halda áfram að lækka. Fyr­ir unga fólkið er þetta sér­stakt gleðiefni. Við erum hætt að út lífs­kjör kom­andi kyn­slóða í formi skulda­söfn­un­ar. Við erum þvert á móti far­in að byggja aft­ur upp.

Tæki­fær­in til að létta álög­um verða nýtt á næsta ári, þótt vissu­lega finn­ist mér hægt ganga. Trygg­inga­gjald verður lækkað um fjóra millj­arða og alls átta millj­arða árið eft­ir. Per­sónu­afslátt­ur verður hækkaður um 1% um­fram lög­bundna hækk­un, sem lækk­ar tekju­skatt um 2,2 millj­arða en á móti kem­ur breytt­ur út­reikn­ing­ur á efra þrepi tekju­skatts, sem eyk­ur tekj­ur um 500 millj­ón­ir. Eft­ir stend­ur nettó skatta­lækk­un. Þá hækka barna­bæt­ur um nær tvo millj­arða eða 14% að raun­gildi og vaxta­bæt­ur um 400 millj­ón­ir.

Þetta eru skref í rétta átt en nú er unnið á veg­um fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins að til­lög­um um breytt tekju­skatt­s­kerfi sam­hliða upp­stokk­un á barna­bót­um og hús­næðisstuðningi.

Rauður þráður

Síðustu mánuði og miss­eri hef­ur rauði þráður­inn í mál­flutn­ingi mín­um, jafnt á þingi sem ann­ars staðar verið ein­fald­ur; ekki er for­svar­an­legt að ganga lengra í aukn­ingu rík­is­út­gjalda að öðru óbreyttu. Verk­efnið á kom­andi árum er að nýta sam­eig­in­lega fjár­muni bet­ur og skyn­sam­leg­ar. Gera kröf­ur til þeirra sem fara með op­in­bera fjár­muni og er treyst til þess að reka op­in­ber­ar stofn­an­ir – allt frá skól­um til heil­brigðis­stofn­ana – að fara með þá fjár­muni af skyn­semi og veita okk­ur þá þjón­ustu sem við ætl­umst til og greitt hef­ur verið fyr­ir.

Um 81 millj­arðs króna aukn­ing út­gjalda á næsta ári frá 2017 er til lít­ils ef þjón­usta rík­is­ins verður ekki betri og öfl­ugri. Þegar hver fjög­urra manna fjöl­skylda horf­ir á út­gjöld­in hækka um 927 þúsund krón­ur er það eðli­leg krafa. Ann­ars verða rík­is­út­gjöld­in aldrei nægj­an­lega mik­il.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2018.