Utanríkisráðherra í opinberri heimsókn á Indlandi
'}}

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í opinberri heimsókn á Indlandi. Með honum í för er viðskiptasendinefnd sem samanstendur af hátt í fimmtíu fulltrúum íslenskra fyrirtækja. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Í gær átti Guðlaugur Þór fundi með orkumálaráðherra Indlands, Raj Kumar Singh, og ferðamálararáðherra Indlands, K.J. Alphons, og opnaði viðskiptaþing sem Íslandsstofa stóð fyrir í samvinnu við Íslensk-indverska viðskiptaráðið, utanríkisráðuneytið og WOW air.

Guðlaugur Þór og Raj Kumar Singh, orkumálaráðherra Indlands.

„Indland er annað fjölmennasta ríki heims og ört stækkandi hagkerfi. Beint áætlunarflug milli landanna opnar ýmsa möguleika á sviði ferðaþjónustu og annarra viðskipta,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fund sinn með ferðamálaráðherra. Fram kemur að ráðherrarnir hafi rætt aukin umsvif í ferðaþjónustu sem búast megi við að geti aukist enn frekar með beinu flugi WOWair milli Íslands og Indlands.

Á fundi með orkumálaráðherra ræddi Guðlaugur Þór samstarfsmöguleika landanna á sviði jarðvarma, en Indverjar hafa að mjög litlu leyti nýtt eigin jarðvarma til orkuvinnslu.

„Á Indlandi hefur orðið mikil vakning varðandi endurnýjanlega orkugjafa til að mæta aukinni orkuþörf og stemma stigu við loftslagsbreytingum. Íslensk sérþekking á jarðhitamálum getur nýst í því samhengi en hingað til hafa Indverjar helst nýtt sólar- og vindorku í þessum tilgangi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór og K.J. Alphon, ferðamálaráðherra Indlands.

Á viðskiptaþingi Íslandsstofu var lög áhersla á ferðaþjónustu, matvæli og hátækni. Í opnunarávarpi sínu sagði utanríkisráðherra: „Viðskipti milli ríkjanna hafa hingað til verið fremur lítil en samstarfsmöguleikarnir eru óendanlegir.“

Hrósaði ráðherra sérstaklega framlagi viðskiptaráðanna, en sjötíu fyrirtæki eru meðlimir í Íslensk-indverska viðskiptaráðinu og Indversk-íslenska viðskiptaráðinu.

Í dag, 8. desember, fundaði ráðherra með Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands.

Utanríkisráðherrarnir ræddu aukna möguleika í viðskiptum og ferðaþjónustu samhliða beinu flugi frá Íslandi til Indlands og mikilvægi þess að blása lífi í fríverslunarviðræður EFTA ríkjanna og Indlands, en næsta samningalota er fyrirhuguð í febrúar nk. Þá var aukið samstarf í orkumálum og í sjávarútvegi sömuleiðis til umfjöllunar.

Helstu viðfangsefni alþjóðastjórnmálanna voru einnig til umfjöllunar á fundi ráðherranna, þ.m.t. umbætur á störfum Sameinuðu þjóðanna og mannréttindamál, en Indland tekur sæti í mannréttindaráðinu um næstu áramót þar sem Ísland situr fyrir. Ráðherrarnir ræddu auk þess þróun mála á norðurslóðum og fyrirhugaða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, sem og loftslagsmál og endurnýjanlega orkugjafa í því tilliti. Ráðherrarnir skiptust einnig á upplýsingum um öryggismál í hvorum heimshluta um sig.

„Það var einkar gagnlegt að eiga orðastað við utanríkisráðherra Indlands um stöðu mála á alþjóðavettvangi og ljóst að við deilum áherslum og gildum í mörgu, meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Áhugi indverskra stjórnvalda á málefnum norðurslóða fer jafnframt vaxandi og ljóst að Indland mun láta meira að sér kveða á alþjóðavettvangi á komandi árum. Því er mikilvægt að rækta tengslin og stofna til aukins samstarfs, sem er megintilgangur heimsóknar minnar til Indlands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.