Ríkisstjórnin hefur nú setið í rúmlega ár og á því tímabili hefur verið unnið að fjölmörgum framfaramálum. Hér að neðan verða nefnd nokkur sem unnið hefur verið að í ráðuneytum ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Stuðningur við nýsköpun hefur enn verið efldur, nú síðast í fjárlagfrumvarpi komandi árs með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Þá er jafnframt unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Íslands sem er stórt atriði fyrir framtíðarþróun samfélagsins.
Ráðist hefur verið í stórátak við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði með samanlagt 4 milljörðum króna á árunum 2018-2020.
Sett var á fót heimagistingarvakt hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sl. sumar með 64 milljóna króna fjárveitingu ferðamálaráðherra. Skráðum heimagistingum hefur síðan þá fjölgað um 80% og áætluð heildarfjárhæð sekta nú þegar er um 40 milljónir króna.
Löggæsla í landinu efld og rafrænar þinglýsingar
Heildarútgjöld til löggæslumála hafa aldrei verið meiri en nú. Auknar fjárveitingar hafa verið settar til meðferðar kynferðisbrota hjá lögreglu og héraðssaksóknara. Alls var 15 stöðugildum bætt við hjá lögregluembættunum. Framlög hafa jafnframt verið aukin til lögreglunnar vegna aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi, aðgerða gegn peningaþvætti og til innleiðingar löggæsluáætlunar.
Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp dómsmálaráðherra um rafrænar þinglýsingar en þegar það verður að lögum mun einungis taka örfáar sekúndur að þinglýsa skjölum í stað þess biðtíma sem nú er.
Nýtt hafrannsóknaskip á næstu árum
Auknu fjármagni var veitt til hafrannsókna og ákveðið hefur verið að smíða nýtt hafrannsóknarskip á næstu þremur árum. Með því er staða Íslands sem fiskveiðiþjóðar styrkt verulega, enda eru hafrannsóknir undirstaða verðmætasköpunar í sjávarútvegi.
Unnið er að mótun heildstæðrar matvælastefnu fyrir Ísland til að nýta sóknarfæri í sjávarútvegi og landbúnaði. Jafnframt er unnið að endurskoðun eftirlits hins opinbera í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með það að markmiði að einfalda það og auka skilvirkni.
Skuldir ríkissjóðs lækka áfram
Tryggingagjald verður lækkað um 0,5% í tveimur skrefum 2019 og 2020.
Skattafrádráttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum verður áfram heimilaður auk þess sem skilyrðum til þess verður fækkað og þau einfölduð.
Skuldalækkun ríkissjóðs heldur áfram og nema heildarskuldir ríkissjóðs nú 843 milljörðum króna eða sem samsvarar um 30% af landsframleiðslu.
Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs hefur verið kynnt og verður lagt fram á Alþingi innan skamms. Sjóðnum verður ætlað að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum, s.s. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara.