Vöru- og þjónustuviðskiptajöfnuður nam alls 80 milljörðum á þriðja ársfjórðungi þessa árs og jókst um 11 milljarða frá síðasta ári eða um 15,4%. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbanka Íslands - sjá hér.
Þar kemur fram að útflutningur á vöru og þjónustu hafi numið 398,2 milljörðum á sama tímabili og aukist um 41,9 milljarða eða 11,8% frá sama tímabili árið 2017. Innflutningur vöru og þjónustu nam á móti 318 milljörðum og jókst um 31 milljarð eða 10.9% á milli ára.
„Þetta er þriðji mesti afgangur sem mælst hefur af vöru- og þjónustuviðskiptum hér á landi á þriðja fjórðungi en metið er frá árinu 2016 þegar afgangurinn mældist 100,4 ma. kr. Árið 2015 mældist einnig meiri afgangur en nú en þá nam hann 81,4 ma. kr.,“ segir í fréttinni.
Þar segir einnig: „Sá afgangur sem verið hefur af vöru- og þjónustuviðskiptum á þriðja ársfjórðungi á síðustu árum skýrist einungis af jákvæðum þjónustujöfnuði enda hefur vöruskiptajöfnuður verið neikvæður á þessum árstíma frá og með árinu 2014.“
Í fréttinni segir að á síðustu árum fyrir efnahagshrunið hafi verið töluverður halli á vöru- og þjónustuviðkiptum samanlagt á þessum ársfjórðungi, en sá halli hafi einungis skýrst af miklum halla á vöruviðskiptum en að aldrei hafi mælst halli á þjónustuviðskiptum.