Dulbúin skattheimta
'}}

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Árið 2017 samþykkti meiri­hluti stjórn­ar Orku­veit­unn­ar greiðslu 750 millj­óna króna arðs til Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir rekstr­ar­árið 2016. Minni­hluti stjórn­ar, þau Áslaug María Friðriks­dótt­ir og Kjart­an Magnús­son, mót­mælti áformun­um enda arðgreiðslu­skil­yrði ekki upp­fyllt. Í aðdrag­and­an­um voru sleg­in lán til að fjár­magna veisl­una. Þarna mis­notaði póli­tík­in Orku­veit­una sem tekjutu­sku fyr­ir óskil­greind verk­efni borg­ar­stjóra.

Ég gerði arðgreiðslurn­ar að um­tals­efni á dög­un­um. Steig þá Gylfi Magnús­son á stokk, föndraði fín­ar töl­ur og sakaði mig um ásetn­ing til út­úr­snún­ings. Einu út­úr­snún­ing­arn­ir voru þó hans slaufu­kennda töl­fræði og sér­bökuðu staðreynd­ir. Hann skautaði að fullu fram­hjá umræðuefn­inu – arðgreiðslum sem ekki upp­fylltu til­sett skil­yrði. Hann var auðvitað í varn­ar­stöðu. Hann er einn þeirra sem tóku ákvörðun­ina á sín­um tíma.

Í kjöl­far hruns­ins réðust flest fyr­ir­tæki lands­ins í aðgerðir til að rétta rekst­ur­inn. Þar var Orku­veit­an ekki und­an­skil­in. Orku­veit­an bjó hins veg­ar við þann munað – ólíkt öðrum fyr­ir­tækj­um – að geta velt stór­um hluta sinna rekstr­ar­vand­ræða yfir á borg­ar­búa. Þannig hækkaði fyr­ir­tæki í ein­ok­un­ar­stöðu gjald­skrár á versta tíma fyr­ir sína viðskipta­vini. Með einu penn­astriki. Sam­hliða var slegið lán hjá borg­ar­sjóði, sem auðvitað er fjár­magnaður af skatt­greiðend­um. Nauðsyn­leg­um innviðafjár­fest­ing­um var frestað. All­ar bitnuðu ráðstaf­an­irn­ar á borg­ar­bú­um.

Nú hef­ur rekst­ur Orku­veit­unn­ar náð betra jafn­vægi. Myndi maður þá ætla að borg­ar­bú­ar nytu ágóðans, en al­deil­is ekki. Ávinn­ing­inn af ár­angr­in­um ætl­ar nú­ver­andi meiri­hluti í borg­ar­stjórn að setja lóðbeint í bauk borg­ar­sjóðs. Áform standa til ríf­lega 14 millj­arða arðgreiðslna til borg­ar­inn­ar næstu sex árin. Tak­mörkuð áform standa til gjald­skrár­lækk­ana. Þetta er kunn­ug­legt stef hjá stjórn­mála­fólki – kunn­ug­leg­ur freistni­vandi meiri­hlut­ans – eng­um er bet­ur treyst­andi fyr­ir pen­ing­um en kjörn­um full­trú­um.

Ég aðhyll­ist ekki sama stef. Ég tel eng­um bet­ur treyst­andi fyr­ir fjár­mun­um en ein­mitt þeim sem afla þeirra. Borg­ar­bú­um. Rekstr­ar­ár­ang­ur Orku­veit­unn­ar á mun frem­ur að renna beint til rétti­legra eig­enda Orku­veit­unn­ar – borg­ar­búa – með lækk­un gjald­skrár. Það er ekki lög­mál að skatt­ar og gjöld geti ein­göngu hækkað en aldrei lækkað.

Borg­ar­stjóri inn­heimt­ir nú þegar hæsta lög­leyfða út­svar, hef­ur skuld­sett borg­ina upp í rjáf­ur, inn­heimt­ir fast­eigna­gjöld sem valda smærri fyr­ir­tækj­um veru­leg­um vand­ræðum og eyðir því sem af­lögu er í gælu­verk­efni. Afrakst­ur þess­ara sömu gælu­verk­efna er svo færður einkaaðilum und­ir markaðsverði. Sam­hliða set­ur borg­ar­stjóri arðgreiðslu­kröf­ur á Orku­veit­una – og skuld­set­ur svo fyr­ir­tækið fyr­ir æv­in­týr­inu. Allt á kostnað borg­ar­búa.

Auðvitað eru arðgreiðslur til eig­enda í góðu ár­ferði sjálf­sagðar og eðli­leg­ar í hefðbundn­um fyr­ir­tækja­rekstri. Orku­veit­an er þó ann­ars eðlis – hún er orku­fyr­ir­tæki í al­manna­eigu. Kjarna­hlut­verk henn­ar er að veita góða þjón­ustu á hag­stæðu verði. Á næsta borg­ar­stjórn­ar­fundi mun ég leggja til að horfið verði frá arðgreiðslu­áform­um og þjón­ustu­gjöld lækkuð til sam­ræm­is. Óþarf­lega háar gjald­skrár sem leiða til arðgreiðslna í hend­ur stjórn­mála­manna eru ekk­ert annað en dul­bú­in skatt­heimta á borg­ar­búa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember 2018.