Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:
Það er ekki fyrir hvern sem er að gagnrýna eða efast um hagfræðiþekkingu þeirra sem nú fara fyrir stærstu verkalýðsfélögum landsins. Sá hinn sami má eiga von á því að vera samtvinnaður við illt auðvald, sakaður um að vinna gegn launafólki og fleira í þeim dúr. Það eina sem er öruggt er að sá sem hreyfir efasemdum um hina pólitísku stefnu hinna miklu leiðtoga verður úthrópaður með fúkyrðum – líklega í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að viðkomandi tjái sig nokkurn tímann aftur. Opinber orðræða fælir skynsamt fólk frá því að taka til máls.
Skynsömu fólki má vera ljóst að kröfur háværustu verkalýðsfélaganna eru ekki bara óraunhæfar og óskynsamlegar, heldur með öllu ábyrgðarlausar og aðeins til þess fallnar að búa til falsvonir. Sem betur fer þekkja margir vel til mála og geta tekist á við óskynsemina með efnislegum og málefnalegum hætti. Það hafa að vísu ekki allir jafn digra sjóði og stéttarfélögin hafa en við skulum vona að skynsemin hafi yfirhöndina, sem tryggir launafólki betri lífskjör – stöðugleika og aukinn kaupmátt.
Hugmyndafræðilegi þátturinn er þó ekki síður mikilvægur. Árið er 2018 en vofa Karls Marx lifnar við í frösum íslenskra forystumanna verkalýðsfélaga og fylgisveina þeirra. Þeir sem eldri eru þekkja afleiðingar sósíalismans í Sovétríkjunum, Austur-Þýskalandi og Kína og við sem yngri erum höfum séð hvernig almenningur í Venesúela hefur greitt dýru verði fyrir enn eina tilraunina í nafni sósíalismans. Landi sem fyrir örfáum árum var eitt auðugasta ríki í Suður-Ameríku en er nú orðið efnahagsleg auðn. Dæmin eru fleiri en rúmast í stuttum pistli sem þessum, en niðurstaðan er alltaf sú sama. Hvar sem sósíalismi hefur skotið rótum eru afleiðingarnar skelfilegar fyrir almenning. Það er engin ástæða til að ætla að niðurstaðan yrði önnur hér á landi.
Einn af þeim frösum sem við höfum fengið að heyra mikið af á undanförnum misserum er að atvinnurekendur séu óvinir launamanna. Ekkert gæti verið fjær sanni. Hvorir um sig geta ekki lifað án hinna. Það er sameiginlegur hagur atvinnurekenda og launafólks að vel gangi í rekstri. Bættur hagur launafólks er bættur hagur fyrirtækjanna og öfugt.
Hugmyndafræði sósíalista sem nú hafa hæst í aðdraganda kjarasamninga er hugmyndafræði sem byggist á og sækir næringu í sundrungu. Henni er ætlað að reka fleyg, ekki aðeins milli atvinnurekenda og launafólks heldur einnig milli stétta. Sagan kennir okkur hvaða afleiðingar það hefur. Fyrir launafólk, ekki síður en eigendur fyrirtækja, er nauðsynlegt að spyrna við fótum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2018.