Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykjavíkurborg leggur hæstu álögur á launafólk af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Borgin tekur nú 14,52% af öllum launum þeirra sem eru búsettir í Reykjavík. Til samanburðar hafa Seltjarnarnes, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Kjós lægri skatt af launum fólks. Öll nágrannasveitarfélögin. Þessi útsvarsskattur leggst á öll laun frá fyrstu krónu, enda greiðir ríkið persónuafsláttinn. Reykjavík hefur haft útsvarið í hámarki frá árinu 2011. Nú í aðdraganda kjarasamninga hlýtur þessi mikla skattheimta borgarinnar að koma til skoðunar. Kaupmáttur skerðist meira hjá íbúum borgarinnar en öðrum. Kjarabarátta snýst um að bæta kaupmátt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu í næstu viku leggja til í lækkun í 14,38%. Það er gott fyrsta skref. Kostnaðurinn er um 700 milljónir króna, eða svipað og viðgerð á bragga og mathöll við Hlemm. Þetta er þó heldur lægri fjárhæð en rekstur skrifstofu borgarstjóra kostar á einu ári.
...og leggur álögur á húsnæði
Forseti ASÍ benti nýlega á að sveitarfélögin væru í lykilstöðu til að úthluta lóðum. „Og slá af kröfum um byggingarréttargjald og gatnagerðargjöld og allt það til að liðka fyrir því öll gjöld sem sveitarfélögin leggja á lóðir og nýbyggingar skila sér beint inn í verðlagið.“ Því hefur verið haldið fram af borgarfulltrúum „meirihlutans“ að gjöld sem borgin leggur á lóðir og húsnæði skipti ekki máli. Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, VR og nú ASÍ hafa öll bent á að gjöldin skila sér á endanum í hærra verði húsnæðis. Og þar af leiðandi í hærra leiguverði. Enginn einn aðili getur gert meira til að vinda ofan af erfiðri stöðu í húsnæðismálum. Lóðaskortur og há gjöld borgarinnar hafa beinlínis lagst á leigjendur og kaupendur. Það er því ekki nóg með að borgin taki til sín mest af launum íbúanna. Því til viðbótar talsvert af því sem eftir er af laununum í húsnæðiskostnað fólks vegna ákvarðana þeirra sem nú stjórna í Reykjavík.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2018.