Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar:
Haustin eru annasamur tími hjá kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum. Síðustu vikur hafa einkennst af ráðstefnum og samkomum um sveitarstjórnarmál. Fulltrúar Borgarbyggðar fóru m.a. á haustþing SSV sem fram fór á Bifröst, landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri og Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í Reykjavík.
Mörg spennandi verkefni eru framundan og auknar líkur á töluverðum breytingum á sveitarstjórnarstiginu í náinni framtíð. Þær hugmyndir sem standa uppúr að mati undirritaðrar snúa helst að eflingu sveitarstjórnarstigsins í víðu samhengi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fjallaði um áhugaverðar hugmyndir í þessum efnum sem sumar hverjar eru nokkuð róttækar. Í þessu samhengi fjallaði ráðherrann m.a. um fækkun og stækkun sveitarfélaga með sameiningum þeirra samfara stórauknum framlögum úr jöfnunarsjóði á fjögurra til átta ára tímabili. Að því liðnu tækju gildi lagaákvæði um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum til að skerpa enn frekar á þessari áherslu.
En hvað myndu slíkar aðgerðir raunverulega þýða fyrir sveitarfélögin úti á landi? Ljóst er að ákveðnir annmarkar fylgja tilhöguninni. Sá augljósasti er kannski sá landfræðilegi en landstór sveitarfélög glíma við áskoranir sem eru oft á tíðum mjög frábrugðnar þeim sem eru uppi á teningnum hjá þeim þéttbýlli. Horfa þarf sérstaklega til fjölkjarna sveitarfélaga þar sem vega þarf ákveðna hagsmuni saman í ljósi þess að þarfir samfélaga ákveðinna svæða geta verið mjög mismunandi í heildarsamhenginu. Markmiðið með breytingunum er að gera stjórnsýsluna sterkari og faglegri og því verður að gæta þess að yfirsýnin glatist ekki í ferlinu. Óumdeilt þykir að yfirsýn kjörinna fulltrúa yfir samfélagið og nándin við íbúana eru helstu styrkleikar sveitarstjórnarstigsins.
Þó er augljóst að fjölmörg tækifæri felast samt sem áður í þessari þróun. Til að mynda hafa verkefni færst í auknum mæli frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna á seinni árum. Nýjasta dæmið eru málefni fatlaðs fólks og hafa önnur verkefni verið talin ákjósanleg í þessu samhengi eins til dæmis öldrunarmál og rekstur framhaldsskóla. Með þessu er verið að bæta gæði þjónustunnar og færa hana nær íbúum. Þessar breytingar hafa í mörgum tilfellum verið sveitarfélögunum stór biti. Sum hver hafa átt erfitt með að koma á því þjónustustigi í félagsþjónustunni sem allir eru sammála um þurfi að vera til staðar. Í mörgum tilvikum hafa sveitarfélögin komið á fót byggðasamlagi eða öðru áþekku samstarfsformi til að takast á við þessi verkefni. Stækkun sveitarfélaga eykur umsvif þeirra og getu til að auka þjónustu bæði út frá faglegum og fjárhagslegum forsendum. Ef að þjónustusvæðin eru stærri eru meiri líkur á því að mögulegt sé að koma á sterkum einingum sem þjónusta sveitarfélögin með heildstæðum hætti til að koma til móts við kröfur um fjölþættari og sérhæfðari þjónustu en áður.
Valdefling sveitarfélaga felst ekki síður í virku samstarfi milli sveitarfélaga og aukinni áherslu á umsvif landshlutasamtaka eins og SSV með sameiginlegri stefnumörkun í þeim málaflokkum sem mest mæðir á innan svæðanna. Þannig er stefnt að heildstæðum lausnum þar sem að sveitarfélög láta til sín taka í krafti fjöldans. Fulltrúar sveitarfélaga þurfa stöðugt að vera í hagsmunagæslu og vinna markvisst að því að eyða gráum svæðum í verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að þjónustuþegarnir (íbúarnir) séu ávallt í forgrunni. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa unnið mjög gott starf í þessum anda en fyrir liggur m.a. Sóknaráætlun og Samgönguáætlun Vesturlands. Nýjasta afurð þessa samstarfs eru drög að Velferðarstefnu Vesturlands sem tekur með heildstæðum hætti á þeirri stöðu sem lýst er hér að ofan. Þar kunna að opnast möguleikar á frekari samþættingu á þjónustu t.d. við aldraða og öryrkja sem, auknu samstarfi hvað varðar forvarnarmál ýmiskonar en einnig hafa verið uppi hugmyndir um aukið samstarf á Vesturlandi til að mynda í skipulagsmálum.
Samstarfsfletirnir eru því margir og margvíslegir og tækifærin til að efla samvinnu sannarlega til staðar. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu á vaktinni varðandi þessi málefni, tilbúnir að horfa á stóru myndina og leggja þannig mat á heildarhagsmuni íbúa bæði með tilliti til þjónustustigs og fjárhagslegra þátta.