Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Málfrelsið er einn hornsteina lýðræðisins. Frelsi til að tjá skoðanir sínar er helgur réttur borgaranna. Samkeppni hugmynda og skoðana hefur verið aflvaki framfara í frjálsum samfélögum og leyst þau undan ánauð harðstjóra, sem skáka ýmist í skjóli öfgafullra trúarkenninga eða hugmyndafræði alræðis eða einræðis.
Málfrelsi er ekki aðeins frelsi til að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri, heldur einnig rétturinn til að hafa rangt fyrir sér. Að vera forpokaður og gamaldags er réttur allra, með sama hætti og allir eiga rétt til þess að boða nýjar hugmyndir – nálgast hlutina með öðrum hætti en áður hefur verið gert.
Málfrelsið er ekki bundið við skoðanir sem eru vinsælar, falla í frjóan jarðveg eða njóta almennrar viðurkenningar. Málfrelsið er rétturinn til að ganga á móti straumnum, setja fram ögrandi skoðun – tala fyrir óvinsælu sjónarmiði sem jafnvel byggist á staðleysum.
Stjórnarskráin tryggir öllum frelsi skoðana sinna og sannfæringar. Frelsið er hins vegar ekki án ábyrgðar. Með málfrelsi þurfa menn að standa við orð sín og bera á þeim ábyrgð. „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi,“ segir í meðal annars 73. grein grundvallarlaga okkar. Samkvæmt hegningarlögum er það refsivert að hæðast að, rógbera, smána eða ógna manni eða hópi manna með opinberum ummælum eða annars konar tjáningu, „svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar“.
Hatursorðræða
Sem siðað og frjálst samfélag viljum við koma í veg fyrir hatursorðræðu og við líðum ekki að kynt sé undir ofbeldi gagnvart einstaklingum eða hópum. En skoðanir og viðhorf sem okkur finnst rangar, fyrirlitlegar eða óþægilegar, getum við ekki afgreitt með þeim einfalda hætti að um hatursorðræðu sé að ræða. Við lendum fyrr eða síðar á villigötum og gröfum undan hornsteinum lýðræðisins.
Það er ekki einfalt að skilgreina hvað er hatursorðræða og hvað ekki. Á þetta er bent í riti sem Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova sömdu og Mannréttindaskrifstofa Íslands gaf út árið 2004. Skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig og athuga hver ásetningur geranda sé og hvaða áhrif tjáning sé líkleg að hafa. Hvatning eða áskorun verði að vera til staðar og ásetningur til að ýta undir hatur á ákveðnum hópi. Orðin sem sögð eru afmarka því ekki hvort um hatursorðræðu sé að ræða eða ekki.
Fyrr í þessum mánuði ákvað yfirstjórn Háskólans í Reykjavík að reka lektor vegna ummæla – vissulega heimskulegra ummæla – í lokuðum hópi á samfélagsmiðli. Kennarinn sem vill „síður vinna með konum“ virðist sannfærður um að best sé að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Fyrir flesta er þetta viðhorf óskiljanlegt og merki um gráa forneskju.
Eftir að fjölmiðlar fluttu fréttir af brottrekstrinum hafa forráðamenn HR varið ákvörðun sína með því að halda því fram að kennarinn hafi gerst sekur eða kunni að hafa gerst sekur um hatursorðræðu í garð kvenna. Hér er langt seilst en að líkindum kemur til kasta dómstóla að kveða upp úr um það. Hitt er víst að sameiginleg yfirlýsing rektora allra íslenskra háskóla, sem undirrituð var árið 2005 er gleymd og liggur rykfallin í einhverri skúffu HR. Þar segir meðal annars:
„Háskólum ber að standa vörð um akademískt frelsi sem felur m.a. í sér að einstaklingur geti stundað rannsóknir, kennslu eða nám án óeðlilegrar íhlutunar laga, stofnana, eða félagshópa. Sá sem nýtur akademísks frelsis getur leitað þekkingar og tjáð sannfæringu sína án þess að eiga á hættu að það bitni á starfsöryggi hans eða öðrum mikilvægum hagsmunum.“
Og síðar segir einnig:
„Akademískt frelsi í háskólasamfélagi felur í sér rétt háskólamanna til að gagnrýna stefnu og starfshætti stofnunar sinnar. Það felur í sér borgaralegan rétt til tjáningar og þátttöku í stjórn- og félagsmálum utan háskólans, án þess að það bitni á árangursmati, framgangi eða starfskjörum.“
Hótanir og dómsdagsspár
Háskólakennarar og ekki síst prófessorar hafa í gegnum tíðina sett sitt mark á þjóðmálaumræðuna. Á stundum ganga þeir hart fram í þjóðfélagsgagnrýni og ekki falla skoðanir þeirra öllum í geð. Fáum hefur komið til hugar að ganga á rétt þeirra til að setja fram skoðanir eða hugmyndir, jafnvel þegar hafðar eru uppi hótanir eða dómsdagsspár geri almenningur ekki eins og þeir telja rétt og skylt.
„Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea.“
Þetta sagði einn hagfræðiprófessor Háskóla Íslands þegar deilt var um Icesave-samning. Starfsbróðir hans tók undir og lýsti því yfir að Ísland yrði „svona Kúba norðursins“, yrði samningurinn ekki samþykktur. Annar hafði burði og manndóm til að biðjast afsökunar á ummælum sínum – þau hafi verið vanhugsuð og kjánaleg. Hinn er líklega sama sinnis – sannfærður um eigin röksemdafærslu og hótanir um stríðsástand. Engu skiptir þótt sagan sýni annað – allt annað.
Prófessor í stjórnmálafræði lýsti því yfir í aðdraganda forsetakosninga 2016 að einn frambjóðandinn – Davíð Oddsson – væri „mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included“.
Sturla [1199-1238] var einn helsti höfðingi Sturlunga. Hann var sagður yfirgangssamur og vílaði ekki fyrir sér að ganga á alla gerða samninga ef það hentaði. Sturla gekk Noregskonungi á hönd og vann að því að koma Íslandi undir konung. Aðalgeir Kristjánsson, fyrrverandi landsbókavörður, skrifaði í Morgunblaðið í ágúst árið 2000, að saga Sturlu hefði verið flétta hagsmunasamninga, vinslita og undirmála. Háskólakennarinn reyndi að afsaka sig síðar með því að um „stráksskap“ hefði verið að ræða hjá manni sem er kominn á sjötugsaldurinn.
Skrímsli og nasistar
Í ágúst 2009 ræddi prófessor í stjórnmálafræðum við blaðamann og kallaði hóp sjálfstæðismanna skrímsladeild. Í þeirri deild voru þeir sem töldu rangt að íslenskir skattgreiðendur yrðu látnir axla skuldir Landsbankans vegna Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi. Í huga fræðimannsins var rétt að skilgreina andstæðinga Icesave-samninganna sem einhverskonar óvætti eða skrímsli. Viðkomandi hefur ekki legið undir ásökunum um hatursorðræðu.
Sitjandi formaður eins stjórnarandstöðuflokksins hefur kallað fyrrverandi flokksbræður og -systur svartstakka – líkt þeim við fasista og ofbeldismenn. Fyrr á þessu ári gekk hagfræðiprófessor enn lengra og líkti sjálfstæðismönnum við nasista! Yfirmenn Háskóla Íslands líta ekki á samlíkingu við morðóða hunda sem hatursorðræðu.
Við Íslendingar höfum verið sammála um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar og að allir séu „jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ eins og segir í 65. grein stjórnarskrárinnar. Ef til vill er nauðsynlegt við endurskoðun stjórnarskrárinnar að bæta við ákvæði um að allir skuli jafnir óháð skoðunum sínum og lífsviðhorfum. Svo er auðvitað hægt að setja á fót löggildingarstofu skoðana sem getur út vottorð fyrir löggiltar skoðanir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2018