Byggja borgir bragga?
'}}

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Reykjavíkurborg innheimtir hæsta lögleyfða útsvar. Á síðasta kjörtímabili jukust skatttekjur borgarinnar um 30 milljarða á ársgrundvelli. Á sama tíma jukust skuldir borgarsjóðs um 45% - og áfram heldur skuldsetningin þrátt fyrir fögur fyrirheit um niðurgreiðslu skulda.

Tekjuaukning og aukið lánsfé virðast ekki ætla að duga núverandi meirihluta. Því næstu árin standa áform til 14 milljarða arðgreiðslna frá Orkuveitunni til borgarsjóðs. Svigrúm í rekstri Orkuveitunnar skal augljóslega ekki nýtt til gjaldskrárlækkana. Þess í stað heldur meirihlutinn álögum og þjónustugjöldum í hámarki. Allt á kostnað borgarbúa.

Þegar tekjutuskan er undin til fulls má velta því upp hvert fjármunir skattgreiðenda fara? Það er lágmarkskrafa að ráðdeild sé ráðandi við meðför skattfjár. Það veldur vonbrigðum þegar auknar skatttekjur leiða ekki til öflugri grunnþjónustu. Ekki hefur aukningin runnið til samgöngubóta, skólamála eða húsnæðislausna. Ekki hefur hún leitt til aukinna lífsgæða fyrir borgarbúa.

Umframkeyrslur vegna endurbóta á bragga eru birtingarmynd alvarlegs vanda. Vanda sem kjarnast í virðingarleysi gagnvart skattfé almennings. Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg eytt fleiri hundruð milljónum í endurbætur á húsnæði fyrir veitingarekstur. Bragginn er ekki eina tilfellið – þau eru fleiri - og í öllum tilfellum fara framkvæmdir langt framúr áætlunum.

Það er átakanlegt að rýna sundurliðun kostnaðar vegna endurbótanna. Fjöldi stórra útgjaldaliða er í hrópandi ósamræmi við gangverð sambærilegrar þjónustu. Ekki eingöngu virðast borgaryfirvöld greiða reikninga hikstalaust og af ábyrgðarleysi – heldur vekja ýmsir kostnaðarliðir upp spurningar um mögulegar útskriftir falskra reikninga til borgarsjóðs. Á málinu þarf að taka af festu.

Umræðan kallar einnig á vangaveltur um hlutverk sveitarfélaga. Er eðlilegt að umfangsmiklu almannafé sé eytt í veitingahúsnæði? Væri ekki eðlilegra að verja skattfé til grunnþjónustu við borgarbúa? Í fleiri leikskóla eða betri heimaþjónustu? Ráðast jafnvel í lækkun útsvars eða fasteignagjalda? Er það virkilega eðlilegt hlutverk sveitarfélags að fullbúa húsnæði undir veitingarekstur? Byggja borgir Bragga?

Niðurgreiðsla skulda og lækkaðar álögur á íbúa ættu að vera borgarstjórn kappsmál. Áreiðanleg grunnþjónusta er kjarnahlutverk sveitastjórna. Einkaframtakið er betur til þess fallið að koma öðrum verkefnum til leiðar. Með forgangsröðun fjármuna og virðingu fyrir skattfé almennings mætti bæta lífsgæði í Reykjavík – enda traustur fjárhagur forsenda öflugrar grunnþjónustu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. október 2018.