Frumvarp um fiskeldi lagt fyrir Alþingi
'}}

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. Því er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á núgildandi lögum sem birtist í því að samkvæmt þeim er eina úrræði Matvælastofnunar, í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi, að stöðva starfsemi hennar. Þetta á m.a. við á grundvelli úrskurðar stjórnsýslunefndar.

Ráðherra sagði í gær á facebook síðu sinni: „Þetta er ólíðandi staða að mínu mati enda verða stjórnvöld í slíkum tilvikum að hafa svigrúm til að meta þá hagsmuni sem um ræðir, m.a. á grundvelli sjónarmiða um meðalhóf og um að komist sé hjá óafturkræfri og hugsanlega óþarfri sóun verðmæta.“

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum er rekstrarleyfi er fellt úr gildi geti ráðherra að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða.

1. umræðu um málið lauk á Alþingi seinni partinn í dag og var því vísað til umfjöllunar í atvinnuveganefnd.

Hér má finna 1. umræðu um málið í heild á Alþingi.

Hér má sjá frumvarpið í heild.

Hér má sjá frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um málið.