Jöfn tækifæri öllum til heilla
'}}

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Sjálfstætt starfandi grunnskólar hafa víða sannað gildi sitt. Þeir eru almennt litrík viðbót við skólaflóru hvers lands og hafa gjarnan kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir veita foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna. Einkaframtakið er víða leiðandi í framþróun skólastarfs.

Hérlendis eru starfræktir 13 sjálfstætt starfandi grunnskólar en sex þeirra eru í Reykjavík. Nemendur í sjálfstætt starfandi grunnskólum eru 2,3% allra grunnskólabarna landsins en 4,9% allra grunnskólabarna Reykjavíkur. Þetta eru afar lág hlutföll og niðurstaðan leiðir til fábreytni í skólakerfinu.

Í Hollandi er löng hefð fyrir einkareknum skólum en um 70% allra grunnskólabarna sækja nám í sjálfstæðum skólum. Skólarnir hafa víða vakið athygli fyrir framúrskarandi menntun og góðan rekstur. Skólarnir keppa um nemendur og hvatinn til framfara er mikill. Holland mælist meðal efstu þjóða í PISA-könnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Sjálfstætt starfandi grunnskólar í Hollandi innheimta engin skólagjöld en nemendum þeirra eru tryggð sömu framlög og nemendum opinberra grunnskóla. Þannig er foreldrum af ólíkum efnahag tryggt val milli opinberra skóla og sjálfstætt starfandi skóla.

Rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla í Reykjavík er erfitt, enda opinber framlög til skólanna takmörkuð. Þannig greiðir borgarsjóður aðeins 75% af landsmeðaltali með hverju reykvísku barni sem sækir sjálfstætt starfandi skóla. Þessi takmörkuðu framlög valda því að skólarnir verða að innheimta skólagjöld.

Það er réttlætismál að tryggja jöfn opinber framlög með hverju grunnskólabarni – framlögin eru réttur barnanna og fjármagnið ætti réttilega að fylgja þeim inn í skólakerfið. Með jöfnum opinberum framlögum kæmust sjálfstætt starfandi grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda – og þannig mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst í borginni. Efnahagur foreldra yrði ekki lengur ákvarðandi forsenda við skólaval.

Undirrituð mun á þriðjudag flytja tillögu í borgarstjórn um jöfn opinber framlög með öllum reykvískum grunnskólanemum, óháð því hvort þau sækja sjálfstæða eða borgarrekna skóla. Þannig hverfi sjálfstætt starfandi skólar frá innheimtu skólagjalda og börnum verði tryggð jöfn tækifæri til náms í ólíkum grunnskólum borgarinnar. Það er ekkert sem útilokar framgang málsins, annað en pólitískur vilji.

Það er mikilvægt að tryggja frelsi og val í skólamálum. Lykilforsenda valfrelsis er fjölbreyttara rekstrarform. Menntakerfi sem stuðlar að nýsköpun og veitir kennurum aukið sjálfstæði skilar gjarnan betur undirbúnum nemendum. Við þurfum aukið valfrelsi foreldra og tryggari starfsgrundvöll fyrir einkarekna skóla – fjölbreytni og framþróun er öllum til heilla. Jöfn tækifæri eru öllum til heilla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2018.