Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri og leiðtogi sjálfstæðismanna í Hveragerði var í morgun, fyrst kvenna, kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga á ársþingi sambandsins í Hofi á Akureyri.
Aldís hefur verið bæjarstjóri í Hveragerði frá árinu 2006. Hún tók fyrst sæti í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar árið 1996. Hún var formaður bæjarráðs 1999-2000 og forseti bæjarstjórnar 2000-2002. Þá hefur hún setið í ótal stjórnum, ráðum og nefndum á sveitarstjórnarstiginu, m.a. um tíma í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Aldís hefur átt sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2007. Hún hefur auk þess verið formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins um árabil.
Fjórir aðrir sveitarstjórnafulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru kjörnir í stjórn sambandsins; Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Rakel Óskarsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi og Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri í Norðurþingi.
Fimm sjálfstæðismenn voru jafnframt kjörnir í varastjórn sambandsins; Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Daníel Jakobsson oddviti Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, Gauti Jóhannesson sveitarstjóri á Djúpavogi og Margrét Ólöf A. Sanders oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.