Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum:
Í síðustu viku voru birtar dapurlegar fréttir þess efnis að VÍS hefði ákveðið að leggja niður eða sameina fjölmörg útibú sín og þar með boðað uppsagnir og mikla þjónustuskerðingu við landsbyggðina.
VÍS hefur veitt Vestmannaeyingum vátryggingaþjónustu í fjöldamörg ár og verður nú brotið blað í sögu fyrirtækisins þegar það mun ekki lengur reka útibú í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjabær er stórt og vaxandi samfélag sem er stútfullt af tækifærum og framtíðin m.a. í ferðaþjónustu er virkilega björt á komandi mánuðum með væntanlegri komu nýrrar farþegaferju sem mun styrkja samgöngur til Landeyjahafnar svo ekki sé minnst á byggingu griðarstaðar fyrir hvíthvali, dýraverndunarverkefni Merlin entertainment sem er næststærsta skemmtanafyrirtæki í heiminum á eftir Disney.
Landsbyggðin er lausnin, ekki vandamálið
Þrátt fyrir að stafræn þróun samskipta sé ört vaxandi þá er þörfin fyrir persónulega nálgun á lausn verkefna, samtal, skilning og m.a.s. augnsamband ekki að úreldast. Til Vestmannaeyja hafa verið að flytjast búferlum frá höfuðborginni ungar fjölskyldur sem margar hverjar flytja einmitt störf sín með sér af höfuðborgarsvæðinu og sjá vinnuveitendur þeirra hag af því að starfsfólkið er í betra sambandi við stórfjölskylduna, getur nýtt frítíma sinn betur og þ.a.l. aukast lífsgæði og ánægja starfsmannsins og samhliða afköst hans og jákvæðni gagnvart starfi sínu um leið og starfsmaðurinn kemst í náið samband við annan og ólíkan markað. Það má heldur ekki gleymast að með skertri þjónustu bæði hjá hinu opinbera og hinu einkarekna á landsbyggðinni eykst álagið enn frekar á þjónustustöðvar höfuðborgarinnar.
Tækifærin liggja á landsbyggðinni
Ég harma ákvörðun VÍS, ekki bara fyrir þjónustuþega Vestmannaeyja, ekki bara fyrir þann öfluga starfsmann VÍS í Vestmannaeyjum sem hefur sinnt bæjarfélaginu af alúð og natni til margra ára, ekki bara fyrir það augljósa tap sem fyrirtækið mun uppskera í ljósi glataðrar markaðshlutdeildar í óánægðum byggðarlögum heldur fyrst og fremst fyrir þá skammsýni sem er sýnd með þessari ákvörðun. Tækifærin liggja nefnilega einmitt á landsbyggðinni, þar er fasteignaverð viðráðanlegt, þar eru vegalengdir og boðleiðir stuttar, þar eru lífsgæði, róin og náttúran mikil og þar er tenging við ótrúlega fjölbreytta flóru atvinnulífs og menningar. Hvorki ég, né Vestmannaeyjabær eiga í viðskiptum við VÍS, ef svo væri myndi ég leggja þunga áherslu á að slíkum viðskiptum væri sjálfhætt.
Greinin birtist fyrst á vefnum eyjar.net 26. september 2018