Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:
Reykjavíkurborg greiðir 75% af meðalrekstrarkostnaði grunnskóla landsins á nemanda með barni í sjálfstæðum skóla. Þetta veldur því að sjálfstæðu skólarnir verða að innheimta skólagjöld. Það er sannarlega ekki á færi allra foreldra að greiða skólagjöld og því veldur þetta ákveðinni stéttaskiptingu meðal barna. Eðlilegra væri að líta á þetta út frá réttindum barna til að sækja hvaða skóla sem er. Að barn hefði rétt á því að fá sama framlag óháð því hvaða skóla það og foreldrar þess kjósa að velja.
Börn eru jafn ólík og þau eru mörg. Mismunandi áherslur og lausnir í menntamálum henta hverju þeirra. Sjálfstæðir skólar bæta flóru skóla Reykjavíkur svo um munar. Þeir veita foreldrum valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.
Eykur gæði á öllum sviðum
Fjölbreytt námsframboð og stefnur í kennslu skapa eðlilega samkeppni milli skóla. Aukin samkeppni eykur gæði á öllum sviðum, líka í menntamálum. Mikilvægt er að horfa ekki á sjálfstæða skóla sem einhvers konar ógn heldur sem tækifæri til að bæta menntun barna í borginni. En það eru ekki bara skólarnir sem njóta góðs af samkeppni. Fjölgun sjálfstæðra skóla er mikilvægur þáttur í að auka fjölbreytni þegar kemur að atvinnumöguleikum kennara. Þannig er líka verið að gera kennarastarfið að vænlegri valkosti.
Jöfn tækifæri
Tillaga okkar í Sjálfstæðisflokknum, sem verður tekin fyrir á næsta borgarstjórnarfundi, snýr að því að öll börn í Reykjavík fái jöfn fjárframlög frá borginni óháð því hvaða skóla þau sækja. Í staðinn munu sjálfstæðu skólarnir ekki rukka skólagjöld. Þannig má tryggja jöfn tækifæri allra barna til að sækja hvaða skóla sem hentar, óháð efnahag foreldra. Það er sanngirnis- og réttlætismál fyrir börnin í borginni að tillagan verði samþykkt.