Eftir Eyþór Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur:
Allir eru sammála um að bæta almenningssamgöngur í Reykjavík. Ekki er vanþörf á. Þjónustan er víða brotakennd og ekki hefur tekist að auka hlutdeild strætó í ferðum fólks. Ár eftir ár er talan óbreytt: 4%, þrátt fyrir að samningur sé um að hún ætti að fara í 8%. Áætlanir um 11% auknar tekjur á fyrri hluta þessa árs hafa engan veginn gengið eftir. Það er því eðlilegt að menn staldri við og hiki þegar lögð er fram tillaga um að ráðast í verkefni af stærðargráðunni 70 milljarðar króna. Tillaga um að fjölga millistjórnendum í ráðhúsinu. Tillaga sem kostar hundruð milljóna þótt ekkert verði framkvæmt. Lengi hefur verið talað um að borgarlína sé samstarf sveitarfélaganna. Engu að síður hefur borgin ein ákveðið að ráðast í þessi útgjöld. Ekki eykur traustið hvernig fjárfestingaverkefni borgarinnar hafa gengið. Nýlegt dæmi er af bragga sem gerður var upp með náðhúsi og skála fyrir 415 milljónir. Átti standsetningin að kosta 148 milljónir. Múrar við Miklubraut eru annað dæmi um dýra framúrkeyrslu þar sem heildarkostnaður slagar í hálfan milljarð. Þegar litið er til þess hvernig „borgarlínuverkefni“ hafa gengið til dæmis í Edinborg og Stavanger er tvennt sem kemur í ljós. Annars vegar er hver kílómetri mun dýrari en gert er ráð fyrir að borgarlínan í Reykjavík eigi að kosta. Virðist því gert ráð fyrir að Ísland sé ódýrara. Ekki er víst að allir skrifi upp á það. Hitt sem verkefnin eiga sammerkt er að þau fóru allhressilega yfir áætlun. Óvissan í stórum innviðaverkefnum er alltaf mikil. Vaðlaheiðargöng eru dæmi um slíkt. Óvissan í stórum innviðaverkefnum í grónum hverfum er enn meiri. Stavanger- og Edinborgarverkefnin sanna það.
Aukaskattur á nýtt húsnæði
Loks var boðað í tillögunni að samhliða uppbyggingu borgarlínu yrði byggt hagkvæmt húsnæði. Það eru sannkölluð öfugmæli, enda hefur borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík boðað sérstakan skatt einmitt á þessi svæði, svokallað innviðagjald. Skatt sem leggst á íbúðir sem eru orðnar dýrar fyrir. Í þá óvissuferð sem felst í tillögunni er ekki hægt að fara því hún er ófjármögnuð. Hún er ávísun á skuldsetningu borgarsjóðs sem má síst við slíkum byrðum. Af þessum sökum getum við engan veginn stutt tillöguna um borgarlínu. Svo er það hitt. Stórar hugmyndir sem eiga að leysa öll mál geta orðið til þess að aðrar úrbætur sitji á hakanum. Ekkert verði gert. Stórar hugmyndir sem ekkert verður úr geta verið hættulegar. Á meðan beðið er eftir Godot gerist ekkert.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 20. sept. 2018