Hagsmunir sjúklinga í forgang
'}}

Eftir Jón Gunnarsson, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Brynjar Níelsson:

Almennt séð búum við Íslendingar við mjög öflugt heilbrigðiskerfi. Það byggist ekki síst á faglega sterkum mannauði. Sérfræðilæknar okkar njóta þeirrar sérstöðu, ólíkt því sem er í mörgum löndum, að sækja sér framhaldsmenntun víða um heim. Með því hefur myndast öflugt tengslanet sem nýst hefur vel okkar fámenna samfélagi.

Það eru þó brotalamir í okkar kerfi sem birtast m.a. í biðlistum eftir mikilvægum aðgerðum og ófullnægjandi þjónustu í vistunarúrræðum fyrir eldri borgara. Það er óþolandi að fólk búi við skert lífsgæði og starfsgetu vegna úrræðaleysis varðandi lausnir á vandamáli sem lækning er til við.

Álagið á heilbrigðiskerfið á eftir að aukast á næstu árum t.a.m. vegna þess að hlutfall eldri borgara eykst ár frá ári. Afleiðingar þessa munu m.a. birtast í skorti á heilbrigðisstarfsfólki. Við því þarf að bregðast, m.a. með því að skapa tækifæri fyrir þá fjölmörgu heilbrigðisstarfsmenn sem eru erlendis til að koma heim. Til að ná utan um þessa þróun þarf að setja heilbrigðisstefnu til skemmri og lengri tíma. Með sama hætti og við mótum fjármálastefnu og leggjum fram samgönguáætlun til að ná utan um sambærilega hluti á þeim vettvangi.

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk gegnir veigamiklu hlutverki í heilbrigðiskerfinu hér eins og í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Samspil þeirrar starfsemi við opinbera kerfið eykur augljóslega sveigjanleika og á þar með að geta aukið á hagkvæmni. Það er ekki skynsamleg ráðstöfum fjármuna að byggja upp opinbert kerfi sem er í stakk búið til að taka við öllum toppum í álagi sem kann að myndast.

Okkur virðist sem stefna núverandi heilbrigðisráðherra sé að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og á sama tíma draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Það er að okkar mati röng stefna og nauðsynlegt er, áður en stór skref verða stigin, að fyrir liggi langtímaáætlun í heilbrigðismálum okkar. Engum dytti t.a.m. í hug að fjölga starfsmönnum hjá Vegagerðinni þegar auknar framkvæmdir eru fram undan. Þá er farin sú leið að bjóða út fleiri og stærri verk til sjálfstætt starfandi verktakafyrirtækja.

Það þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir í dag og grípa til úrræða sem vinna á biðlistum. Okkar skoðun er sú að það eigi að gera með því að bjóða út verkefni sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki á heilbrigðissviði og starfsfólk þeirra geta leyst. Í þessu sambandi má nefna liðskiptaaðgerðir, vistun heilabilaðra og dagvistarúrræði fyrir eldri borgara og sjúklinga. Við höfum reynslu af aðgerð sem þessari þegar augnsteinaaðgerðir voru boðnar út fyrir nokkrum árum. Verkefnið tókst mjög vel, biðlisti hvarf á skömmum tíma og verðið fyrir aðgerðirnar var mjög hagkvæmt.

Það er á okkar ábyrgð að fá sem besta nýtingu á því fjármagni sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Það er engin glóra í þeirri sviðsmynd sem birtist okkur í umræðunni um liðskiptaaðgerðir. Sjúklingar eru sendir til útlanda á sama tíma og hægt er að framkvæma allt að tvær til þrjár aðgerðir fyrir verð einnar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækjum hér heima. Þetta er fráleit ráðstöfun fjármagns og svar ráðherrans að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum til að framkvæma aðgerðirnar hér heima er algerlega út í hött. Samhliða útboðsleið eins og þeirri sem við tölum fyrir væri eðlilegt að opinberar heilbrigðisstofnanir s.s. Landspítalinn – háskólasjúkrahús leigðu út aðstöðu til sjálfstætt starfandi aðila. Þannig fengist betri nýting á t.a.m. skurðstofum og tækjabúnaði sem ekki er í notkun stóran hluta sólarhringsins.

Markmiðið á að vera að leita allra leiða til að bæta þjónustu við fólk og nýtingu fjármuna, í stað þess að leggja stein í götu einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, sem sannarlega mun leiða til bættrar þjónustu, betri nýtingar fjármuna og styttingar biðlista – öllum til hagsbóta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september.