Tækifæri og áskoranir
'}}

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Auðvitað er ekki allt í himna­lagi hjá okk­ur Íslend­ing­um. Það er ým­is­legt sem bet­ur má fara. En í flestu er staða okk­ar öf­undsverð og tæki­fær­in eru til staðar. Tæki­fær­in renna okk­ur hins veg­ar úr greip­um ef við mæt­um ekki þeim áskor­un­um sem við blasa.

„Lífs­kjör á Íslandi eru góð, með þeim bestu meðal OECD-ríkja, og ójöfnuður lít­ill í alþjóðleg­um sam­an­b­urði,“ skrif­ar dr. Gylfi Zoëga, pró­fess­or í hag­fræði, í upp­hafi rit­gerðar um stöðu efna­hags­mála í aðdrag­anda kjara­samn­inga, sem unn­in var að beiðni for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins. Hann bend­ir á að hag­kerfið hafi náð sér eft­ir áfallið 2008 og að „helstu hag­stærðir hafa aldrei verið jafn hag­stæðar og um þess­ar mund­ir“. Op­in­ber umræða – jafnt fjöl­miðla, stjórn­mála og álits­gjafa – end­ur­spegl­ar illa þessa staðreynd.

Og dr. Gylfi bend­ir á hið aug­ljósa, sem æ færri virðast muna eft­ir:

„Lífs­kjör þjóðar­inn­ar ráðast af fram­leiðni, at­vinnu­stigi, viðskipta­kjör­um og er­lendri skulda­stöðu. Kjara­samn­ing­ar hafa áhrif á skipt­ingu tekna á milli hagnaðar og launa og hlut­falls­leg laun ein­stakra stétta en þegar til lengri tíma er litið skipt­ir hag­vöxt­ur mestu máli fyr­ir þróun lífs­kjara. Þannig hef­ur 5% hag­vöxt­ur í för með sér að lífs­kjör verða tvö­falt betri á 14 árum en við 1% hag­vöxt ger­ist það á 70 árum, svo dæmi sé tekið. Miklu máli skipt­ir því að búa at­vinnu­lífi hag­stætt um­hverfi.“

Með öðrum orðum: Sókn til bættra lífs­kjara verður ekki án þess að byggja und­ir at­vinnu­lífið – tryggja hag­stætt um­hverfi fyr­ir lít­il jafnt sem stærri fyr­ir­tæki. Gefa þeim tæki­færi til að auka verðmæta­sköp­un – auka fram­leiðni – og gera þeim kleift að standa und­ir hærri laun­um. Það þarf frjó­an jarðveg fyr­ir ný fyr­ir­tæki og hvetja ungt fólk til að stofna fyr­ir­tæki. Byggja und­ir fram­taks­mann­inn. Þetta verður ekki gert með op­in­ber­um af­skipt­um og til­skip­un­um, held­ur með því að horf­ast í augu við þá staðreynd að stjórn­kerfið hef­ur vaxið okk­ur yfir höfuð. Við þurf­um ekki niður­skurð held­ur upp­skurð á kerf­inu, gera það ein­fald­ara og skil­virk­ara.

Auk­inn kaup­mátt­ur

Þótt horf­ur séu á hæg­ari hag­vexti á næstu árum en við höf­um notið síðustu ár eru efna­hags­leg­ar aðstæður í flestu hag­stæðar, eins og kem­ur vel fram í rit­gerð dr. Gylfa Zoëga. Sterkt gengi krón­unn­ar, sam­hliða veru­legri hækk­un launa­kostnaðar, hef­ur að vísu dregið úr sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra fyr­ir­tækja. Lækk­un vaxta og lægri álög­ur, skil­virk­ara reglu­verk, sam­hliða auk­inni fram­leiðni er skyn­sam­leg­asta leiðin til að tryggja stöðu ís­lensks at­vinnu­lífs­ins til lengri tíma.

Gert er ráð fyr­ir 2,9% hag­vexti á þessu ári borið sam­an við 3,6% vöxt á liðnu ári. Í þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar fyrr í sum­ar er reiknað með 2,7% hag­vexti á næsta ári. Á ár­un­um 2020-2023 er spáð að hag­vöxt­ur verði á bil­inu 2,5-2,7%. At­vinnu­leysi er lítið eða 2,5% í júlí sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar.

Síðastliðna tólf mánuði hef­ur vísi­tala neyslu­verðs hækkað um 2,6% en vísi­tal­an án hús­næðis hef­ur hækkað um 1,3%. Launa­vísi­tal­an hef­ur hækkað um 6,3% og vísi­tala kaup­mátt­ar um 3,5%. Frá árs­byrj­un 2013 hef­ur launa­vísi­tal­an hækkað 51% og kaup­mátt­ur launa um 29%.

Líkt og hænu­skref – en í rétta átt

Heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs námu 36% af vergri lands­fram­leiðslu í lok síðasta árs og höfðu lækkað úr 86% frá ár­inu 2011 þegar skuld­irn­ar náðu há­marki. Sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un er reiknað með að skulda­hlut­fallið verði komið niður í 21% af lands­fram­leiðslu árið 2023. Vöxt­ur lands­fram­leiðslunn­ar, og góður ár­ang­ur við stjórn efna­hags- og rík­is­fjár­mála eru megin­á­stæða þessa mikla ár­ang­urs, sam­hliða full­um end­ur­heimt­um og hag­stæðu upp­gjöri við slita­bú fjár­mála­fyr­ir­tækja. Al­menn­ing­ur nýt­ur lægri skulda rík­is­sjóðs í formi lægri vaxta­gjalda, sem auka svig­rúm rík­is­sjóðs til að lækka álög­ur og bæta þjón­ustu og auka fjár­fest­ingu í innviðum. Tak­ist að halda áfram á sömu braut verða vaxta­gjöld rík­is­sjóðs nær 46 millj­örðum króna lægri árið 2023 en 2009 þegar þau námu alls 84,3 millj­örðum króna. Sparnaður­inn er nokkru meiri en heild­ar­út­gjöld til sam­göngu- og fjar­skipta­mála á kom­andi ári sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un.

Þessi góði ár­ang­ur skipt­ir miklu. Fram­lög til heil­brigðismála og annarra vel­ferðar­mála hafa verið stór­auk­in og fjár­mála­áætl­un næstu fimm ára ger­ir ráð fyr­ir að út­gjalda­aukn­ing­in haldi áfram. En um leið hafa ýms­ir skatt­ar verið lækkaðir, þótt oft finn­ist mér eins og aðeins séu tek­in hænu­skref í þeim efn­um – en skref í rétta átt. Fyr­ir launa­fólk skipt­ir það máli að milliþrep tekju­skatts var fellt niður og lægra þrepið lækkað. Af­nám al­mennra vöru­gjalda hef­ur skilað al­menn­ingi ávinn­ingi sem og af­nám tolla af flest­um vör­um. Skatt­frelsi sér­eigna­sparnaðar sem nýtt­ur er til íbúðakaupa hef­ur skipt ungt fólk miklu.

Ég hef áður bent á að við, sem vilj­um draga úr um­svif­um rík­is­ins, lækka skatta á al­menn­ing og fyr­ir­tæki, ýta und­ir fram­taks­menn­ina og ein­falda leik­regl­urn­ar, erum í minni­hluta á þingi. Við þurf­um að glíma við þing­menn sem líta á vasa al­menn­ings og fyr­ir­tækja sem hlaðborð – einskon­ar All-you-can-eat til­boð fyr­ir út­gjaldaglaða stjórn­mála­menn.

Áskor­an­ir þrátt fyr­ir hag­sæld

Hag­sæld­in er ekki án áskor­ana til lengri og skemmri tíma. Kjara­samn­ing­ar verða ekki ein­fald­ir en upp­stokk­un tekju­skatt­s­kerf­is­ins gæti orðið þungt lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að tryggja stöðug­leika og kaup­inn kaup­mátt. Ferðaþjón­ust­an verður ekki sami aflvaki hag­vaxt­ar á næstu árum og hún hef­ur verið. Ytra um­hverfi sjáv­ar­út­vegs er í mörgu óhag­stætt og þung­ar skatt­byrðar geta, að öðru óbreyttu, kné­sett fyr­ir­tæki. Erfiðleik­ar í sauðfjár­rækt hafa al­var­leg áhrif á fjöl­mörg byggðarlög. Íslensk­ur land­búnaður – sem hef­ur náð ótrú­leg­um ár­angri í að auka hag­kvæmni – þarf að mæta auk­inni sam­keppni. Slíkt er eðli­legt og heil­brigt ef leik­regl­urn­ar tryggja jafn­ræði. Ekk­ert land sem vill tryggja full­veldi sitt gagn­vart öðrum þjóðum, get­ur leyft sér að fórna eig­in mat­væla­ör­yggi. Po­púl­ist­ar lofa al­menn­ingi ódýr­um mat­væl­um og eru til­bún­ir til að fórna öfl­ugri og heil­brigðri inn­lendri fram­leiðslu á alt­ari lýðskrums­ins.

Flutn­ings­kerfi raf­orku þarfn­ast end­ur­nýj­un­ar og stend­ur at­vinnuþróun um allt land fyr­ir þrif­um. Rétt­lát­ar breyt­ing­ar á trygg­inga­kerfi ör­yrkja hafa ekki verið gerðar og enn búa marg­ir eldri borg­ar­ar við þröng­an kost. Upp­bygg­ingu heil­brigðis­kerf­is­ins er langt í frá lokið en ég ótt­ast að við séum að stefna í ranga átt. Í stað þess að nýta hæfi­leika og krafta heil­brigðis­starfs­fólks sem starfar sjálf­stætt, erum við að auka óhagræðið, bæta við rík­is­rekst­ur­inn, auka kostnað. Þjón­usta verður lak­ari.

Grunn­ein­ing sam­fé­lags­ins

Í amstri hvers­dags­ins þar sem leitað er lausna á vanda­mál­um dags­ins gefst sjald­an tími til að líta til langr­ar framtíðar. For­ystu­menn launa­fólks horfa eðli­lega á næsta kjara­samn­ing og til þess tíma sem hann er í gildi – vega og meta hvaða ávinn­ingi hann fær­ir um­bjóðend­um þeirra. Stjórn­mála­mönn­um hætt­ir til að miða allt sitt starf við yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bil (sem hafa verið stutt síðustu ár). Fyr­ir margra eru næstu mánaðamót nægj­an­legt áhyggju­efni.

En þrátt fyr­ir áhyggj­ur og vafst­ur hvers­dags­ins verðum til að móta skýra framtíðar­sýn og marka stefnu í hvernig við byggj­um upp sam­fé­lagið til langr­ar framtíðar.

Stærsta áskor­un kom­andi ára og ára­tuga er að tak­ast á við breytta ald­urs­sam­setn­ingu þjóðar­inn­ar og lækk­andi fæðing­artíðni. Að óbreyttu stefn­ir í að eft­ir 2060 verði fleiri utan vinnu­markaðar en þeir sem eru starf­andi. Auðvitað eru það góðar frétt­ir að líf­ald­ur okk­ar Íslend­inga er stöðugt að lengj­ast og við eig­um eitt öfl­ug­asta líf­eyri­s­kerfi í heimi. En við komust ekki hjá því að lengja starfsæv­ina og ná ár­angri í að draga úr ný­gengni ör­orku. Við þurf­um að stór­auka fjár­fest­ingu í bar­áttu gegn lífs­stíl­stengd­um sjúk­dóm­um og starf­send­ur­hæf­ingu. Og við þurf­um að hefja fjöl­skyld­una aft­ur til vegs og virðing­ar.

Fjöl­skyld­an er grunn­ein­ing sam­fé­lags­ins og þess vegna á stefna í skatta­mál­um að taka mið af fjöl­skyld­unni og styrkja hana sem grunn­ein­ingu en ekki veikja. Við þurf­um sam­eig­in­lega að koma í veg fyr­ir að fram­gang­ur for­eldra (móður) sé sett­ur á frost af vinnu­veit­enda vegna barneigna. At­vinnu­rek­end­ur – einkaaðilar og op­in­ber­ir – verða að inn­leiða ný vinnu­brögð og nýtt hug­ar­far. Skipu­lag op­in­berr­ar þjón­ustu verður að taka mið af þörf­um fjöl­skyld­unn­ar; allt skóla­kerfið þar að vera sniðið að fjöl­skyld­um, líkt og heil­brigðisþjón­usta, fæðing­ar­or­lof o.s.frv. Hið sama gild­ir um hús­næðismál, skipu­lags- og sam­göngu­mál.

Það er hægt að segja þetta með ein­föld­um hætti: Við eig­um að gera það aft­ur eft­ir­sókn­ar­vert að stofna fjöl­skyldu og eign­ast börn, al­veg með sama hætti og við eig­um að sníða reglu­verk at­vinnu­lífs­ins með þeim hætti að það sé eft­ir­sókn­ar­vert að koma á fót nýju fyr­ir­tæki, búa til ný tæki­færi. Þetta er í sjálfu sér ein­falt en get­ur reynst flók­in áskor­un.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. september 2018