Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:
Skólastarf er nú hafið eftir sumarleyfi. Fjölmargir nemendur stigu sín fyrstu skref í grunnskóla og hófu nám í fyrsta bekk. Nokkrir nýir nemendur sem voru að taka þetta stóra skref voru teknir tali í Íslandi í dag á Stöð tvö í vikunni. Spenningurinn leyndi sér ekki, bros á hverju andliti og tilhlökkun fyrir nýjum verkefnum. Það sem mér fannst þó áhugaverðast var það hverju börnin voru spenntust fyrir að byrja læra í skólanum. Smíði, heimilisfræði og að læra að hekla var það sem börnin nefndu sérstaklega (saga og danska er kannski ekki það sem börnin nefna fyrst við 6 ára aldur.)
Þetta leiddi þó hugann að því hvernig iðnnámi er gert undir höfði í grunnskólagöngu barnanna okkar. Fjöldi barna telur iðngreinar bæði áhugaverðar og skemmtilegar. Að grunnskólagöngu lokinni er það þó bóknámið sem dregur þau að sér. Það er meðal annars vegna þess að við höfum ýtt undir bóknámið en vanrækt iðnnámið um langa hríð. Hér á landi er mikil eftirspurn eftir iðnmenntuðu fólki, en við eigum langt í land hvað varðar ásókn í iðnnám. Við þurfum að gera iðnnámi hærra undir höfði strax á fyrstu árum skólagöngunnar og leggja meiri áherslu á hagnýtni verklegra greina.
Í lögum um grunnskóla er kveðið á um leggja skuli áherslu á jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms innan grunnskólanna. Einhvern veginn virðist þó vera að þar, líkt og annars staðar í kerfinu, sé megináherslan á bóklega námið. Það eru engar skyndilausnir sem virka til að efla iðnnám í landinu, heldur þarf að skoða öll stig samfélagsins og kerfisins. Þar skiptir grunnskólinn höfuðmáli, hvernig við leggjum áherslu á nám yngstu nemenda og hvernig sú þróun er fram að útskrift nemenda í 10. bekk.
Þegar tæknin tekur stöðugum framförum og það verður enn meiri áskorun fyrir atvinnulífið að halda samkeppnishæfni sinni verður atvinnulífið að eiga kost á fleiri iðn- og tæknimenntuðum einstaklingum. Iðnnám er ein grunnstoð afkastamikils og öflugs atvinnulífs og ekki síst þegar horft er fram á þær breytingar sem nú þegar eru hafnar og framundan eru á vinnumarkaði. Skortur á iðnmenntuðu fólki er orðinn hamlandi fyrir starfsemi fjölda fyrirtækja þar sem þörfin er mikil fyrir fleira fagmenntað fólk.
Að efla iðn-, verk- og starfsnám er í þágu fjölbreyttara og öflugara samfélags sem á þess kost að takast á við nýjar áskoranir. Við þurfum að þora að taka stór skref til að breyta áherslum kerfisins okkar og gera iðnnemum og iðnnámi jafn hátt undir höfði og bóknámi. Það er búið að tala um þetta í mörg ár án þess að gera áþreifanlegar breytingar. Á meðan hefur atvinnulífið þróast hratt og úrelt áhersla á mikilvægi bóknáms umfram aðra menntun situr eftir.
Greinin „Skemmtilegast í smíði” birtist í Morgunblaðinu 1. september 2018