Borgarbúar tapa í stækkandi stjórnkerfi
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Síðustu mánuðir hafa ekki verið góðir fyr­ir stjórn­sýslu Reykja­vík­ur­borg­ar eins og dæm­in sýna. Ný­lega féll dóm­ur þar sem Reykja­vík­ur­borg var dæmd til að greiða starfs­manni skaðabæt­ur vegna fram­komu skrif­stofu­stjóra skrif­stofu borg­ar­stjóra og borg­ar­rit­ara í garð hans. Í júlí komst kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála að þeirri niður­stöðu að borg­in hefði brotið jafnrétt­is­lög við ráðningu borg­ar­lög­manns í fyrra. Vinnu­eft­ir­litið gerði at­huga­semd við ákvörðun mann­rétt­inda- og lýðræðisráðs borg­ar­inn­ar um að öll sal­erni skuli verða ókyngreind og umboðsmaður borg­ar­búa seg­ir í ný­legu áliti að und­ir­bún­ing­ur ákvörðunar menn­ing­ar- og ferðamálaráðs um út­leigu á Iðnó hafi ekki verið í sam­ræmi við sjón­ar­mið um vandaða stjórn­sýslu­hætti.

Al­var­leg­ast er þó ný­legt álit umboðsmanns Alþing­is þar sem fram kem­ur að meðferð (sem túlka má sem van­rækslu) Reykja­vík­ur­borg­ar á utang­arðsfólki og heim­il­is­laus­um í borg­inni er brot á stjórn­sýslu­lög­um, al­menn­um lög­um, stjórn­ar­skrá og fjölþjóðleg­um mannréttindaskuld­bind­ing­um.

Nú er sjálfsagt að skrifa marg­ar grein­ar og halda lang­ar ræður um óvandaða stjórn­sýslu Reykja­vík­ur­borg­ar en þegar fjöldi borg­ar­full­trúa tel­ur á þriðja tug er rétt að láta þeim það eft­ir. Það verður þó að segj­ast eins og er að þögn þeirra sem iðulega hafa hvað hæst um óvandaða stjórn­sýslu annarra er nokkuð æp­andi. Full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Pírata þegja þunnu hljóði vegna mál­anna í borg­inni en þau hafa ekki sparað stóru orðin þegar þau vilja að aðrir axli ábyrgð. Það hef­ur ekki verið brugðist við þess­um mál­um á op­in­ber­um vett­vangi með nokkr­um hætti.

Allt leiðir þetta hug­ann að öðrum mál­um inn­an stjórn­kerf­is borg­ar­inn­ar. Í kjöl­far kosn­inga vorið 2014 þurftu vinstri­flokk­arn­ir í borg­inni að auka við meiri­hluta sinn til að halda völdum. Þá var brugðið á það ráð að búa til nýtt ráð, stjórn­kerf­is- og lýðræðisráð, til þess eins að fá Pírata að borðinu. Eini borg­ar­full­trúi Pírata varð formaður ráðsins. Eng­in merki eru um að þetta nýja ráð hafi nokkuð gert til þess að bæta stjórn­sýsl­una í Reykja­vík. Það er held­ur ekki að sjá að stofn­un ráðsins, með því umstangi og fjár­út­lát­um sem fylgja, hafi bætt líf borg­ar­búa á nokk­urn hátt. Það eina sem það gerði var að tryggja völd þeirra sem vildu áfram stjórna borg­inni.

Eft­ir kosn­ing­arn­ar nú í vor þurfti aft­ur að bæta við gamla meiri­hlut­ann svo hann héldi. Viðreisn fékk boð í veisl­una og aft­ur var hróflað við ráðum og nefnd­um til að láta þetta smella sam­an. Hvort stjórn­sýsl­an batn­ar á enn eft­ir að koma í ljós. Mér þykir þó lík­legra að stjórn­kerfið haldi áfram að stækka en þjón­usta við borg­ar­búa fari áfram versn­andi. Það virðist engu máli skipta hversu oft og hversu mikið hrært er í stjórn­kerfi borg­ar­inn­ar, íbúarn­ir tapa alltaf.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2018.