Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
„Á mánudaginn komu hingað til borgar frá Íslandi tveir ungir og efnilegir menn, báðir ættaðir af Sauðárkróki, en þeir eru Kári Jónsson sonur Jóns Björnssonar verzlunarmanns og konu hans Unnar Magnúsdóttur, og Eiríkur Haukur Stefánsson, sonur Stefáns Vagnssonar og konu hans Helgu Jónsdóttur; þeir munu hafa í hyggju, að ílengjast hér í landi, ef alt gengur að óskum.“
Þannig hljóðaði stutt frétt í Lögbergi, blaði Vestur-Íslendinga í Kanada, 17. júní 1954, sama dag og haldið var upp á 10 ára afmæli lýðveldisins. Daginn áður hafði Heimskringla birt frétt sama efnis. Kári og Haukur (Húggi eins og hann var alltaf kallaður) voru þá báðir á 21. aldursári, fæddir 1933. Ævintýraþrá leiddi þessa ungu Króksara til að freista gæfunnar í Kanada, en erfitt atvinnuástand spilaði þar einnig inn í. Báðir áttu þeir drauma sem ekki rættust í Kanada. Kári er faðir þess er hér skrifar.
Fábreytni og höft
Á sjötta áratug síðustu aldar voru tækifærin á Íslandi ekki mörg fyrir unga menn. Atvinnulíf var einhæft, höft við lýði enda höfðu vindar frelsis sem fylgdu Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1959 til 1971 ekki fengið að blása um þjóðfélagið.
Í leiðara Morgunblaðsins 21. mars 1953 var bent á að lífskjör „þessarar þjóðar eins og annarra þjóða hljóta fyrst og fremst að byggjast á því, að hún eigi í fyrsta lagi sem fullkomnust framleiðslutæki til þess að bjarga sér með, og í öðru lagi að rekstur þessara tækja hvíli á heilbrigðum grundvelli“. Í mörgu hafði Íslendingum orðið ágengt að byggja upp eftir seinni heimsstyrjöldina, – „afla sér nýrra og fjölbreyttari tækja til atvinnurekstrar síns til lands og sjávar,“ eins og Morgunblaðið sagði en bætti við:
„En það er ekki nóg að við eignumst mörg og fullkomin atvinnutæki. Það verður að vera hægt að reka þessi tæki þannig að þau skapi almenningi atvinnu og öryggi um afkomu sína.“
Haraldur Júlíusson, kaupmaður á Sauðárkróki, (móðurafi Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi ráðherra og þingmanns) lýsti ástandi í atvinnumálum ágætlega í bréfi til Kára í janúar 1955. Þar greinir hann frá því að ríkisstjórnin hafi keypt togarann Vilborgu frá Vestmannaeyjum og „ætlar hann handa Sauðárkrók og Ólafsfirði en þó ekki gefins heldur eiga þessir aðilar að kaupa hann en vitanlega verður það aldrei nema formið því líkur eru litlar fyrir að sú útgerð geti borið sig hér frekar en annarstaðar nema síður og þá verður það auðvitað Ríkið sem verður að hlaupa undir bagga því ekki geta þessir aðilar tekið á sig taprekstur að neinu ráði“. Haraldur segir einnig frá því að um áramótin hafi komið „dálítið smásíldarhlaup og var hún veidd til niðursuðu, er búið að framleiða nokkra tugi þúsunda dósa sem allar seljast um leið, hefur skapast við dágóð atvinna fyrir nokkrar stúlkur og karlmenn“. Einnig var gerð tilraun til að bræða eitthvað af síldinni en Haraldur segir að það verði ekki „gróða fyrirtæki“.
Haftastefna og kjarabótastefna
Fyrir þingkosningar í júní 1953 gaf Ólafur Björnsson, prófessor og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, út bókina Haftastefna og kjarabótastefna. Þar lagði hann áherslu á mikilvægi frjálsrar verslunar, sem tryggi „lægstan dreifingarkostnað og hagkvæmust innkaup“. Ólafur færði rök fyrir því að hagur launafólks væri best tryggður með frjálsi samkeppni og því ættu samtök þeirra að beita sér fyrir frjálsu neysluvali og jafnvægi í þjóðarbúskapnum, en ekki að knýja fram óraunhæfar kauphækkanir. Ólafur var formaður BSRB 1948 til 1956.
Fyrir yngra fólk sem gengur að frelsinu sem vísu og telur góð lífskjör sjálfsögð er erfitt að skilja þjóðfélagsbaráttuna sem oft var illvíg, fyrir og eftir síðari heimsstyrjöld. Tekist var á um hugmyndafræði miðstýringar og alræðis annars vegar og athafnafrelsis einstaklinganna hins vegar. Þegar ungu mennirnir frá Sauðárkróki ákváðu að leggjast í víking til Kanada var flestu í efnahagslífinu handstýrt af stjórnvöldum. Fjármálamarkaður var ekki til og vextir voru ákveðnir af ríkisstjórn. Gengi var mismunandi eftir vörum og svartamarkaður með gjaldeyri var í blóma. Flest var háð leyfum og vöruúrval fátæklegt.
Það er því ekki að furða að frelsið í Kanada hafi vakið athygli ungu vinanna frá Króknum. Í bréfi til föður síns í september 1954 segir Kári að verslunarhættir séu gróskumiklir, kenni þar margra grasa og margt megi læra „ef vel er tekið eftir“:
„Það sem maður tekur fyrst eftir, er frelsið, sem ríkjandi er á flestum sviðum. Allar búðir eru yfirfullar af varning og verð og gæði afar misjafnt. Þar sýnir að verzlunarmaðurinn hefur frelsi í vali og álagningu.“
Kári hreifst af „sjálfsafgreiðslu“ í verslunum og framkomu afgreiðslufólksins sem sé „mjög eftirtektarverð, vegna kurteisi og alúðar, sem það hefur til að bera í ríkum mæli“. Hann skynjaði hvernig frelsi og samkeppni laðaði fram það besta.
Ekki langt frá eikinni
Vinirnir sem fóru á vit ævintýranna í Kanada fyrir 64 árum sneru aftur heim reynslunni ríkari og kunnu að meta Ísland betur en áður – sáu landið í bjartara ljósi. Báðir tóku þeir þátt í, hvor með sínum hætti, að umbreyta Íslandi og gera það að einu öflugasta velferðarríki heims. Þeir fengu að upplifa hvernig Ísland braust úr fjötrum hafta og helsis. Þeir, ásamt öðrum af þeirra kynslóð, lögðu grunninn að öflugra og fjölbreyttara atvinnulífi – tryggðu að þeir sem á eftir komu fengju tækifæri sem þeir gátu aldrei látið sig dreyma um, hvorki í Kanada né á Íslandi.
Vinirnir féllu báðir frá á besta aldri. Kári árið 1991 og Húggi rúmu ári síðar – 58 og 59 ára. Eitthvað segir mér að þeir ættu erfitt með að skilja íslenskt þjóðfélag í dag. Báðir væru ánægðir með þann gríðarlega árangur sem náðst hefur, þar sem Íslands hefur skipað sér á bekk mestu velmegunarþjóða sögunnar. Hvorugur gæti hins vegar komið því heim og saman hvernig í ósköpunum nokkrir verkalýðsforingjar telja rétt að taka upp gömul vinnubrögð og efna til átaka um tugprósenta kauphækkanir sem engin innistæða er fyrir.
Og eitt veit ég fyrir víst. Faðir minn hefði aldrei haft skilning eða tekið undir með þeim stjórnmálamönnum sem ala á andúð og tortryggni í garð einstakra atvinnugreina og fyrirtækja og nýta hvert tækifæri sem gefst til að grafa undan gjaldmiðli sjálfstæðrar þjóðar. Í þessu efni a.m.k. féll eplið ekki langt frá eikinni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2018