Að meta Ísland betur en áður
'}}

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

„Á mánu­dag­inn komu hingað til borg­ar frá Íslandi tveir ung­ir og efni­leg­ir menn, báðir ættaðir af Sauðár­króki, en þeir eru Kári Jóns­son son­ur Jóns Björns­son­ar verzl­un­ar­manns og konu hans Unn­ar Magnús­dótt­ur, og Ei­rík­ur Hauk­ur Stef­áns­son, son­ur Stef­áns Vagns­son­ar og konu hans Helgu Jóns­dótt­ur; þeir munu hafa í hyggju, að ílengj­ast hér í landi, ef alt geng­ur að ósk­um.“

Þannig hljóðaði stutt frétt í Lög­bergi, blaði Vest­ur-Íslend­inga í Kan­ada, 17. júní 1954, sama dag og haldið var upp á 10 ára af­mæli lýðveld­is­ins. Dag­inn áður hafði Heimskringla birt frétt sama efn­is. Kári og Hauk­ur (Húggi eins og hann var alltaf kallaður) voru þá báðir á 21. ald­ursári, fædd­ir 1933. Ævin­týraþrá leiddi þessa ungu Króks­ara til að freista gæf­unn­ar í Kan­ada, en erfitt at­vinnu­ástand spilaði þar einnig inn í. Báðir áttu þeir drauma sem ekki rætt­ust í Kan­ada. Kári er faðir þess er hér skrif­ar.

Fá­breytni og höft

Á sjötta ára­tug síðustu ald­ar voru tæki­fær­in á Íslandi ekki mörg fyr­ir unga menn. At­vinnu­líf var ein­hæft, höft við lýði enda höfðu vind­ar frels­is sem fylgdu Viðreisn­ar­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Alþýðuflokks 1959 til 1971 ekki fengið að blása um þjóðfé­lagið.

Í leiðara Morg­un­blaðsins 21. mars 1953 var bent á að lífs­kjör „þess­ar­ar þjóðar eins og annarra þjóða hljóta fyrst og fremst að byggj­ast á því, að hún eigi í fyrsta lagi sem full­komn­ust fram­leiðslu­tæki til þess að bjarga sér með, og í öðru lagi að rekst­ur þess­ara tækja hvíli á heil­brigðum grund­velli“. Í mörgu hafði Íslend­ing­um orðið ágengt að byggja upp eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina, – „afla sér nýrra og fjöl­breytt­ari tækja til at­vinnu­rekstr­ar síns til lands og sjáv­ar,“ eins og Morg­un­blaðið sagði en bætti við:

„En það er ekki nóg að við eign­umst mörg og full­kom­in at­vinnu­tæki. Það verður að vera hægt að reka þessi tæki þannig að þau skapi al­menn­ingi at­vinnu og ör­yggi um af­komu sína.“

Har­ald­ur Júlí­us­son, kaupmaður á Sauðár­króki, (móðurafi Ein­ars K. Guðfinns­son­ar, fyrr­ver­andi ráðherra og þing­manns) lýsti ástandi í at­vinnu­mál­um ágæt­lega í bréfi til Kára í janú­ar 1955. Þar grein­ir hann frá því að rík­is­stjórn­in hafi keypt tog­ar­ann Vil­borgu frá Vest­manna­eyj­um og „ætl­ar hann handa Sauðár­krók og Ólafs­firði en þó ekki gef­ins held­ur eiga þess­ir aðilar að kaupa hann en vit­an­lega verður það aldrei nema formið því lík­ur eru litl­ar fyr­ir að sú út­gerð geti borið sig hér frek­ar en ann­arstaðar nema síður og þá verður það auðvitað Ríkið sem verður að hlaupa und­ir bagga því ekki geta þess­ir aðilar tekið á sig ta­prekst­ur að neinu ráði“. Har­ald­ur seg­ir einnig frá því að um ára­mót­in hafi komið „dá­lítið smá­síld­ar­hlaup og var hún veidd til niðursuðu, er búið að fram­leiða nokkra tugi þúsunda dósa sem all­ar selj­ast um leið, hef­ur skap­ast við dágóð at­vinna fyr­ir nokkr­ar stúlk­ur og karl­menn“. Einnig var gerð til­raun til að bræða eitt­hvað af síld­inni en Har­ald­ur seg­ir að það verði ekki „gróða fyr­ir­tæki“.

Hafta­stefna og kjara­bóta­stefna

Fyr­ir þing­kosn­ing­ar í júní 1953 gaf Ólaf­ur Björns­son, pró­fess­or og fram­bjóðandi Sjálf­stæðis­flokks­ins, út bók­ina Hafta­stefna og kjara­bóta­stefna. Þar lagði hann áherslu á mik­il­vægi frjálsr­ar versl­un­ar, sem tryggi „lægst­an dreif­ing­ar­kostnað og hag­kvæm­ust inn­kaup“. Ólaf­ur færði rök fyr­ir því að hag­ur launa­fólks væri best tryggður með frjálsi sam­keppni og því ættu sam­tök þeirra að beita sér fyr­ir frjálsu neyslu­vali og jafn­vægi í þjóðarbú­skapn­um, en ekki að knýja fram óraun­hæf­ar kaup­hækk­an­ir. Ólaf­ur var formaður BSRB 1948 til 1956.

Fyr­ir yngra fólk sem geng­ur að frels­inu sem vísu og tel­ur góð lífs­kjör sjálf­sögð er erfitt að skilja þjóðfé­lags­bar­átt­una sem oft var ill­víg, fyr­ir og eft­ir síðari heims­styrj­öld. Tek­ist var á um hug­mynda­fræði miðstýr­ing­ar og alræðis ann­ars veg­ar og at­hafna­frels­is ein­stak­ling­anna hins veg­ar. Þegar ungu menn­irn­ir frá Sauðár­króki ákváðu að leggj­ast í vík­ing til Kan­ada var flestu í efna­hags­líf­inu hand­stýrt af stjórn­völd­um. Fjár­mála­markaður var ekki til og vext­ir voru ákveðnir af rík­is­stjórn. Gengi var mis­mun­andi eft­ir vör­um og svarta­markaður með gjald­eyri var í blóma. Flest var háð leyf­um og vöru­úr­val fá­tæk­legt.

Það er því ekki að furða að frelsið í Kan­ada hafi vakið at­hygli ungu vin­anna frá Krókn­um. Í bréfi til föður síns í sept­em­ber 1954 seg­ir Kári að versl­un­ar­hætt­ir séu grósku­mikl­ir, kenni þar margra grasa og margt megi læra „ef vel er tekið eft­ir“:

„Það sem maður tek­ur fyrst eft­ir, er frelsið, sem ríkj­andi er á flest­um sviðum. All­ar búðir eru yf­ir­full­ar af varn­ing og verð og gæði afar mis­jafnt. Þar sýn­ir að verzl­un­ar­maður­inn hef­ur frelsi í vali og álagn­ingu.“

Kári hreifst af „sjálfsaf­greiðslu“ í versl­un­um og fram­komu af­greiðslu­fólks­ins sem sé „mjög eft­ir­tekt­ar­verð, vegna kurt­eisi og alúðar, sem það hef­ur til að bera í rík­um mæli“. Hann skynjaði hvernig frelsi og sam­keppni laðaði fram það besta.

Ekki langt frá eik­inni

Vin­irn­ir sem fóru á vit æv­in­týr­anna í Kan­ada fyr­ir 64 árum sneru aft­ur heim reynsl­unni rík­ari og kunnu að meta Ísland bet­ur en áður – sáu landið í bjart­ara ljósi. Báðir tóku þeir þátt í, hvor með sín­um hætti, að umbreyta Íslandi og gera það að einu öfl­ug­asta vel­ferðarríki heims. Þeir fengu að upp­lifa hvernig Ísland braust úr fjötr­um hafta og hels­is. Þeir, ásamt öðrum af þeirra kyn­slóð, lögðu grunn­inn að öfl­ugra og fjöl­breytt­ara at­vinnu­lífi – tryggðu að þeir sem á eft­ir komu fengju tæki­færi sem þeir gátu aldrei látið sig dreyma um, hvorki í Kan­ada né á Íslandi.

Vin­irn­ir féllu báðir frá á besta aldri. Kári árið 1991 og Húggi rúmu ári síðar – 58 og 59 ára. Eitt­hvað seg­ir mér að þeir ættu erfitt með að skilja ís­lenskt þjóðfé­lag í dag. Báðir væru ánægðir með þann gríðarlega ár­ang­ur sem náðst hef­ur, þar sem Íslands hef­ur skipað sér á bekk mestu vel­meg­un­arþjóða sög­unn­ar. Hvor­ug­ur gæti hins veg­ar komið því heim og sam­an hvernig í ósköp­un­um nokkr­ir verka­lýðsfor­ingj­ar telja rétt að taka upp göm­ul vinnu­brögð og efna til átaka um tug­pró­senta kaup­hækk­an­ir sem eng­in inni­stæða er fyr­ir.

Og eitt veit ég fyr­ir víst. Faðir minn hefði aldrei haft skiln­ing eða tekið und­ir með þeim stjórn­mála­mönn­um sem ala á andúð og tor­tryggni í garð ein­stakra at­vinnu­greina og fyr­ir­tækja og nýta hvert tæki­færi sem gefst til að grafa und­an gjald­miðli sjálf­stæðrar þjóðar. Í þessu efni a.m.k. féll eplið ekki langt frá eik­inni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2018