Björgunarbátar eru ekki farþegaskip
'}}

Það er eitthvað að í Reykjavík. Þrátt fyrir að miklir fjármunir fari í félagslega kerfið vaxa biðlistar eftir húsnæði. Þrátt fyrir loforð um úrbætur hefur leiguverð hækkað um nærri 100% á fjórum árum.

Húsnæðislausu fólki hefur fjölgað um 95%. Sífellt fleiri þurfa að búa í foreldrahúsum. Það er ljóst að núverandi stefna hefur brugðist. Reykjavík hefur vanrækt skyldu sína að hér sé byggt hagkvæmt húsnæði. Byggt er mest á dýrum stöðum. Sífellt fleiri flytja annað.

Sumir geta ekki eignast eða leigt á almennum markaði eins og hann er orðinn. Félagslega kerfið á þá að taka við en stór göt eru í möskvum öryggisnetsins. Félagsbústaðir hf. kaupa íbúðir á markaði sem hefur hækkað um 100% ekki síst vegna ákvarðana borgarinnar sjálfrar.

Þetta háa markaðsverð fer beint í leiguverðið og hefur leiguverð hjá Félagsbústöðum hækkað mikið. Þeir sem eru svo „heppnir“ að fá húsnæði þurfa að borga mun hærra verð en fyrir nokkrum árum. Félagsbústaðir reikna sér svo tugmilljarða hagnað vegna endurmats á félagslegu húsnæði.

Raunverulegar lausnir

Það er grundvallaratriði að félagslega kerfið í Reykjavík hafi skýra stefnu og markmið um að koma fólki til sjálfshjálpar. Enginn vill festast inni í velferðarkerfinu, heldur á það að vera öryggisnet sem styður fólk til að geta lifað á eigin forsendum.

Ýmis merki eru um að núverandi kerfi sé ekki að styðja við þetta grundvallaratriði, heldur flækjast margir í fátæktargildrum. Festast í netinu. Björgunarbátar eru ekki farþegaskip heldur neyðarúrræði. En mikilvægast er að koma í veg fyrir neyðina. Þess vegna viljum við breyta borginni þannig að fleiri geti verið á eigin forsendum í samfélaginu en ekki upp á náð og miskunn kerfisins.

Almennar aðgerðir til að tryggja hagkvæmara húsnæði eru forgangsmál. Þess vegna höfum við lagt fram á annan tug tillagna til að leysa þessi mál. Lækka byggingargjöld, afnema innviðagjald, byggja á hagkvæmum stöðum og minnka skrifræðið.

Þessar tillögur eru tækifæri fyrir borgarbúa. Vonandi fá þær brautargengi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. ágúst 2018