Frakkar, Özil, Pia og við
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

„Til hamingju með heimsmeistaratitilinn, Afríka!“ – Þannig mælti Trevor Noah, stjórnandi bandaríska spjallþáttarins The Daily Show, eftir að Frakkar lyftu bikarnum á HM í Rússlandi. Sem kunnugt er var lið nýbakaðra heimsmeistara að mestu skipað leikmönnum með rætur utan Frakklands.

Ekki betur sett án fjölbreytni

Ummælin voru vel meint og hittu að ákveðnu leyti í mark. Tilgangurinn var að benda á að fólk af erlendum uppruna er hluti af samfélaginu og hefur mikið fram að færa – í þessu tilviki jafnvel meira en gengur og gerist – og fráleitt að telja það á einhvern hátt síðri þjóðfélagsþegna. Ummælin voru því eins konar fingur framan í þá sem telja að lönd og þjóðir séu betur sett án fjölbreytni. Í þessum skilningi hittu þau í mark.

Það er hins vegar önnur hlið á þeim, því það má skilja þau þannig að viðkomandi einstaklingar séu ekki Frakkar. Og þar með er orðfærið orðið hið sama og öfgafullir andstæðingar innflytjenda nota. Það má færa rök fyrir að kveðjan „Til hamingju Afríka“ byggi á sömu forsendu um aðskilnað og þeir nota sem hreyta í þessa sömu einstaklinga að þeir ættu að koma sér „heim“, jafnvel þó að jákvæða merkingin sem liggur að baki eigi að vera augljós.

Sendiherra Frakka í Bandaríkjunum sendi Noah nokkuð harðort bréf og gagnrýndi hann fyrir að svipta leikmennina frönsku þjóðerni sínu með ummælunum. Noah svaraði því vel og spurði hvort þeir gætu ekki verið hvort tveggja í senn, sannir Frakkar og jafnframt stoltir af erlendum uppruna sínum.

„Innflytjandi þegar við töpum“

Uppruni leikmanna hefur líka verið í deiglunni hjá nágrönnum Frakka, Þjóðverjum. Ein skærasta stjarna þeirra, Mesut Özil, gaf fyrir örfáum dögum út langa yfirlýsingu þar sem hann útskýrir að hann geti ekki spilað fleiri leiki með landsliðinu á meðan hann upplifi andúð og vanvirðingu á grundvelli uppruna síns, jafnvel frá æðstu stöðum innan þýska knattspyrnusambandsins.

„Í augum Grindels [forseta þýska knattspyrnusambandsins] og skoðanasystkina hans er ég Þjóðverji þegar við vinnum en innflytjandi þegar við töpum,“ segir Özil, sem er fæddur og uppalinn í Þýskalandi en af þriðju kynslóð tyrkneskra innflytjenda.

Özil spyr líka hvers vegna hann sé iðulega kallaður „tyrknesk-þýskur“ en félagar hans af pólskum uppruna (hann tiltekur Podolski og Klose) séu aldrei kallaðir „pólsk-þýskir“. Kannski er sannleikskorn í spurningu hans: „Er það vegna þess að ég er múslimi?“

Það er athyglisvert að málsmetandi fjölmiðlar í Þýskalandi hafa tekið undir gagnrýni Özils. Mál hans á sér fleiri hliðar sem ekki verða raktar hér, en aðalatriðið er að það er enn ein áminningin um að andúð á grundvelli kynþáttar og uppruna er viðvarandi vandamál. Og líklega verður venjulegt fólk enn verr fyrir barðinu á slíkri andúð og fordómum en stórstjörnur á borð við Mesut Özil.

Þjóðerni

Það er við hæfi á aldarafmæli fullveldis að við veltum fyrir okkur hvað felst í íslensku þjóðerni. Kannski fárið í kringum heimsókn Piu Kjærsgaard verði til þess.

Í ávarpi á Hrafnseyri á þjóðhátíðardaginn í fyrra sagðist ég telja að þjóðerni – burtséð frá hinni lagalegu hlið vegabréfs og ríkisfangs – yrði hvorki skilgreint á forsendum genamengis né menningararfs heldur fremur á grundvelli vilja: Vilja til að deila örlögum með íslenskri þjóð, vilja til að telja sjálfan sig hluta af íslenskri þjóð og vilja til að sýna óbilandi hollustu við hagsmuni íslenskrar þjóðar eins og hver og einn metur þá í einlægni og góðri trú.

Við þetta mætti kannski bæta: Vilja til að virða og verja grundvallargildi þjóðarinnar, sem við getum síðan lengi rætt hver séu.

Ég leyfi mér að vona að meirihluti þeirra sem vilja síður opna samfélagið séu ekki þeirrar skoðunar vegna andúðar á kynþáttum heldur vegna ótta við að samfélagið glati gildum sínum. Sjálf tel ég að við séum vel fær um að halda áfram að feta braut hins opna fjölmenningarsamfélags og það sé okkur beinlínis hollt.

Nýlega bárust fréttir af því að alþjóðleg könnun um gildismat þjóða hefði sýnt að lýðræðið stæði merkilega völtum fótum í sumum vestrænum löndum. Stór hluti almennings væri þannig tiltölulega jákvæður gagnvart því að tekið yrði upp einhverskonar einræðisfyrirkomulag í stað lýðræðis. Vonandi gáfu þessar fréttir ýkta mynd af stöðunni en lítum ekki heldur fram hjá reynslunni, sem sýnir að við þurfum að sýna fyllstu árverkni til að verja grunngildi okkar. Og hættan kemur ekki endilega utan frá heldur allt eins að innan.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 29. júlí.