Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda. Þingmenn fjögurra annarra flokka standa einnig að frumvarpinu.
Vilhjálmur hefur einnig lagt fram tvær fyrirspurnir til ráðherra varðandi hag barna við foreldramissi. Hægt er að nálgast fyrirspurnirnar neðst í fréttinni.
Í frumvarpinu er lögð til breyting á nokkrum lögum þar sem réttindi barna sem aðstandenda eru tryggð í lögum. Þannig fái börn sjálfstæðan rétt sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi og foreldris sem andast. Verði frumvarpið að lögum verður heilbrigðisstarfsmönnum gert að kanna hvort sjúklingar með geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma eigi barn undir lögaldri og í kjölfarið „sjá til þess eins fljótt og unnt er að rætt sé við sjúklinginn um rétt og stöðu barnsins og þörf þess fyrir þátttöku, upplýsingar, leiðbeiningar og aðstoð vegna veikinda foreldrisins. Að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu skal heilbrigðisstarfsmaður bjóða barninu og þeim sem annast barnið í veikindum foreldris slíkt samtal.“
Skóla barns verði gert viðvart
Í frumvarpinu segir einnig að gætt skuli að aldri barns í samtölum við það og að heilbrigðisstarfsmaðurinn skuli hafa samband við skóla barnsins til að tryggt sé að það fái viðeigandi þjónustu og stuðning í skólanum.
Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að þegar einstaklingur andast skuli sá læknir sem gefur út dánarvottorð kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri og reynist svo vera skal það tilkynnt til heilsugæslunnar þar sem barnið býr. Yfirlæknir heilsugæslunnar skal þá eins fljótt og unnt er sjá til þess að rætt sé við barnið og því tryggður sá sjálfstæði réttur sem það nýtur til að viðhalda tengslum jafnt við fjölskyldu hins látna foreldris og þess eftirlifandi. Yfirlæknirinn skal jafnframt hafa samband við skólann sem barnið sækir til að tryggja að skólinn veiti þann stuðning sem barnið á rétt á.
Umgengni við nána aðstandendur verði tryggt
Gerð er tillaga að breytingum á barnalögum þess efnis að ef annað foreldra barns er látið eða bæði eigi barnið rétt á umgengni við nána aðstandendur og vandamenn hins látna foreldris, er þar átt við foreldra hins látna foreldris, systkini foreldrisins og lögráða systkini barnsins, en einnig aðra nákomna sem hafa látið sig varða velferð þess. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sýslumenn beri ábyrgð á að þessu sé fylgt eftir. Þá verður einnig óheimilt að veita langlífara foreldri barns heimild til setu í óskiptu búi nema að búið verði að ganga frá fyrirkomulagi umgengni barnsins við nána vandamenn þess.
Þá er lögð til sú breyting á lögum um leikskóla og á lögum um grunnskóla að leik- og grunnskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri, stuðning innan leikskólans í samvinnu við heilsugæslu og þá heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar. Það sama eigi við ef barn missi foreldri sitt. Sama breyting verði gerð á lögum um framhaldsskóla varðandi ólögráða framhaldsskólanemendur.
Frumvarp Vilhjálms Árnasonar og fimm annarra þingmanna í heild sinni.
Fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar til félags- og jafnréttismálaráðherra.