Kjósum breytingar! Er stöðugleiki sama og stöðnun?
'}}

Jón Bjarnason, 1. sæti í Hrunamannahreppi:

Á síðasta áratug hefur íbúum Hrunamannahrepps fækkað og ákveðin stöðnun verið ríkjandi. Þetta er ekki í takt við þróun hjá nágrannasveitarfélögum okkar í uppsveitunum eins og sjá má á meðfylgjandi grafi sem byggir á tölum frá Hagstofu Íslands. Meðalaldur fer hækkandi í sveitarfélaginu og á síðustu sjö árum hefur íbúum 50 ára og eldri fjölgað hlutfallslega úr 23% í tæp 40%. Fjöldi barna í grunnskólanum hefur ekki verið færri í fleiri áratugi og útlit fyrir enn frekari fækkun í haust. Þetta er ekki stöðugleiki heldur stöðnun til lengri tíma. Þessu ætlum við að breyta!

Skipuleggjum og mótum framtíðina

Við á D-lista Sjálfstæðismann og óháðra í Hrunamannahreppi stefnum til framtíðar með skýra sýn um aðlaðandi og uppbyggilegt sveitarfélag fyrir einstaklinga og fjölskyldur á öllum aldri til að búa í.

Áhersla er lögð á að aldraðir geti búið í heimabyggð við öryggi og góða þjónustu. Strax þarf að skipuleggja íbúðasvæði fyrir 60 ára og eldri sem vilja minnka við sig og fá meiri þjónustu og félagslíf. Við endurskoðun á skipulagsmálum þéttbýlisins á Flúðum þarf líka að fjölga lóðum sem henta ungu fólki t.d. par- og raðhúsalóðum, en eins og staðan er í dag eru engar slíkar lóðir tilbúnar til úthlutunar.

Skipulagsmál á afrétti Hrunamanna eiga að vera í höndum sveitarfélagsins og taka þarf upplýstar ákvarðanir í hálendismálum. Gera þarf verkáætlun í góðu samstarfi við þau félagasamtök sem stuðla að uppbyggingu afréttarins.

Ábyrg fjármálastjórnun og opin stjórnsýsla

Opin stjórnsýsla er okkur á D-lista Sjálfstæðismann og óháðra mjög mikilvæg. Með meira gagnsæi og lifandi stjórnsýslu eykst áhugi og þátttaka íbúanna. Þannig viljum við virkja unga fólkið í samfélaginu og stuðla að öflugu og metnaðarfullu starfi nefnda. Góð vinnubrögð, málefnaleg vinna og samvinna skiptir okkur miklu máli. Við leggjum áherslu á langtíma stefnumörkun og ábyrga stjórn sveitarfélagsins en erum óhrædd við að sækja fram.

Ég vil hvetja sveitunga mína til að mæta á kjörstað og taka þátt í að móta framtíðina í Hrunamannahreppi. Gerum lífið betra og kjósum breytingar – setjum X við D þann 26. maí.

Greinin birtist fyrst á dfs.is 25. maí 2018.