Efling norræna velferðarkerfisins, endurbætur á norrænu samstarfi og efling þess, víðtækara og aukið samstarf við Eystrasaltsríkin, áhrif Brexit á samskipti Norðurlanda og Bretlands, auk helstu ógna sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir, var meðal þess sem rætt var á leiðtogafundi norrænna íhaldsflokka, sem haldinn var í Stokkhólmi í dag.
Að tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, var ákveðið að efna til sameiginlegrar ráðstefnu um þróun norræna velferðarkerfisins. „Norðurlöndin hafa náð að byggja upp bestu velferðarkerfi heims“, segir Bjarni.„ Til að viðhalda sterkri stöðu norræna velferðakerfisins og efla það enn frekar — þannig að engir verði útundan á breyttum tímum — er mikilvægt fyrir löndin að læra af reynslu hvers annars, meðal annars um það hvernig mæta beri þeim nýju áskorunum, sem löndin standa frammi fyrir. Við erum mikið til að fást við sömu vandamál — og svipuð tækifæri — þó í mismiklum mæli sé, og getum margt lært af frændum okkar og nágrönnum. Þar fyrir utan er mikilvægt fyrir ríki Norðurlanda að kanna hvort þau geti í sameiningu náð aukinni hagkvæmni í innkaupum”, bætti Bjarni við.
Auk Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, voru formenn hinna norrænu íhaldsflokkanna viðstaddir fundinn, þau Erna Solberg forsætisráðherra Noregs (Høyre), Søren Pape Poulsen dómsmálaráðherra Danmerkur (Det Konservative Folkeparti), Petteri Orpo fjármálaráðherra Finnlands (Kokoomus) og Ulf Kristersson frá Svíþjóð (Moderaterna).
Á meðfylgjandi mynd eru leiðtogar norrænu íhaldsflokkanna í fundarhléi í Stokkhólmi; frá vinstri: Petteri Orpo, Ulf Kristersson, Bjarni, Erna Solberg og Søren Pape Poulsen.