Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:
Í liðinni viku skapaðist mikil umræða um öryggis- og varnarmál í kjölfar aðgerða Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands í Sýrlandi. Eftir aðgerðina stóð Ísland ásamt öllum bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins að yfirlýsingu NATO. Við líkt og aðrar þjóðir sögðum þær skiljanlegar en ítrekuðum að við teldum áfram brýnt að ná pólitískri lausn í málefnum Sýrlands og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna axlaði ábyrgð. Einungis þannig er hægt að binda enda á átökin í Sýrlandi.
Umræðan sem fylgdi í kjölfarið, m.a. um stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins og hvernig ákvarðanir þar eru teknar, sýndi ákveðna vanþekkingu á öryggis- og varnarmálum með hugmyndum um að við ættum með einhverjum hætti að vera hlutlaus eða ekki með í yfirlýsingu bandalagsins. Ákvarðanir í bandalaginu eru einungis teknar á grundvelli samstöðu og orðalagið í yfirlýsingunni tekur mið af því. Þannig hafa ákvarðanir í NATO verið teknar frá stofnun bandalagsins árið 1949. Annaðhvort eru öll ríki með eða engin ákvörðun er tekin.
Gagnrýni aðila snerist fyrst og fremst um mismunandi stefnu ríkisstjórnarflokkanna í öryggis- og varnarmálum; ólíka stefnu flokkanna í þessum málum, frekar en öðrum, þótt ekki komi það neinum á óvart. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er aftur á móti skýr, sem og skilaboð Íslands og ákvarðanir út á við. Það er það sem skiptir máli, ákvarðanir okkar um samskipti Íslands við önnur lönd og hvaða stöðu við tökum í alþjóðasamfélaginu. Þótt stjórnarandstæðingar geti velt vöngum yfir mismunandi stefnu stjórnarflokkanna er það nú samt svo að utanríkisstefna landsins stendur föstum fótum og hefur gert lengi.
Það er augljóst að þörf er á dýpri umfjöllun um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Bæði þurfa þau að fá meira rými í þjóðfélagsumræðunni en einnig á Alþingi. Staðan í alþjóðamálunum er oft á tíðum flókin og það eru ýmis mál sem skipta okkur meira máli en áður. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður sem við sjáum ekki alltaf fyrir. Það er því mikilvægt að virkja samtal um þessi mál með meiri og betri hætti en gert hefur verið hingað til. Hér hafa ýmsir aðilar stuðlað að upplýstri umræðu um öryggis- og varnarmál. Hæst ber samtök á borð við Varðberg, Nexus og loks Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.
Við höfum í gegnum tíðina eftirlátið öðrum ríkjum að móta varnarstefnu fyrir Ísland, enda hafa aðrir haft til þess betri þekkingu en við. Þessu þarf að breyta til lengri tíma. Við þurfum að byggja upp þekkingu á öryggis- og varnarmálum hér á landi þannig að við séum betur í stakk búin til að taka ákvarðarnir, móta framtíðarstefnu og takast á við þær áskoranir sem bíða okkar í alþjóðamálum.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. apríl sl.