Óli Björn Kárason, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar:
Í fyrsta skipti í 150 ár fer íbúum í sveitum landsins fjölgandi. Á sjö árum hefur fjöldi íbúa í strjálbýli í grennd við höfuðborgarsvæðið tvöfaldast. Víða um land hafa byggðarlög verið að styrkjast og eflast. Atvinnulífið er fjölbreyttara. Uppgangur í ferðaþjónustu hefur ekki aðeins skotið nýrri stoð undir atvinnulíf í þorpum, bæjum og sveitum, heldur gert mannlífið auðugra – kryddað samfélagið með kaffihúsum, veitingastöðum, hótelum og gistihúsum. Öflugur sjávarútvegur og umsvifamiklar fjárfestingar í landi og á sjó hafa gert lífvænlegar byggðir enn blómlegri. Tækniframfarir hafa hægt og bítandi innleitt valfrelsi í búsetu.
Þetta hefur allt gerst án þess að tekin hafi verið sérstök stjórnvaldsákvörðun um að svona skyldi þróunin vera. Það voru ekki stjórnmálamenn eða embættismenn „fyrir sunnan“ sem leiddu þróunina eða mörkuðu stefnuna. Fyrirtækin og fólkið sjálft hefur séð tækifærin og haft áræði og dugnað til að nýta sér þau.
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, vakti athygli á íbúðaþróuninni í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir skömmu. Hann bendir á að áherslur í byggðaþróun breytist þegar fólk fær að ráða því meira hvar það býr:
„Þegar iðnbyltingin byrjaði þurfti að þjappa fólki saman í kringum verksmiðjurnar og svona. Það sem gerist núna er að staðsetningin skiptir minna máli. Þá fer þetta að snúast minna um hvar verðurðu að búa, heldur hvar viltu búa?“
Metnaðarfull byggðaáætlun
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti fyrir tillögu til stefnumótandi byggðaáætlunar á þingi síðastliðinn mánudag. Um það verður ekki deilt að áætlunin er metnaðarfull og undir flest er hægt að taka, en sumt orkar tvímælis og annað er líklega til óþurftar og jafnvel skaða.
Samkvæmt tillögunni á Ísland að vera í „fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög, sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Nýjasta tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.“ Landið allt á að vera í blómlegri byggð og stuðla á að jöfnu aðgengi landsmanna að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Í umræðum um byggðaáætlunina hélt ég því fram að lykilorðið í áætlun af þessu tagi ætti að vera valfrelsi borgaranna – valfrelsi ætti að vera rauði þráðurinn í byggðastefnu stjórnvalda og raunar í öllu starfi þingmanna á öllum sviðum. Tryggja á raunverulegt valfrelsi landsmanna til að taka ákvörðun um eigin hag, þar á meðal hvar þeir vilja eiga búsetu.
Innviðir og uppskurður
Raunhæf byggðastefna til framtíðar felst í því að fjárfesta í innviðum samfélagsins; í góðum samgöngum, öflugu fjarskiptakerfi og háhraðaneti, tryggu flutningskerfi raforku, öflugri heilbrigðisþjónustu, góðri menntun og sterkri löggæslu.
Við þurfum að brjótast úr þeim hlekkjum hugarfarsins að stofnanir ríkisins og þjónusta þeirra skuli bundin við ákveðna fasteign í Reykjavík. Fjórða iðnbyltingin gerir okkur kleift að nálgast rekstur ríkisins og skipulag stofnana með allt öðrum og hagkvæmari hætti en áður. Þegar innviðirnir eru í lagi, ekki síst samgöngur og fjarskipti, er það raunhæfur draumur að æ fleiri starfsmenn stofnana ríkisins og fyrirtækja á almennum markaði geti tekið sjálfstæða ákvörðun um staðsetningu, – öðlist valfrelsi um hvar þeir vilja búa, í stað þess að vera þvingaðir til að búa þar sem störf við hæfi er að fá.
Skynsamleg byggðastefna krefst þess að við áttum okkur á einfaldri staðreynd: Fámenn þjóð hefur ekki efni á því að reka flókið og dýrt stjórnkerfi. Uppskurður í stjórnkerfinu og stofnunum ríkisins þar sem verkefnum er úthýst til einkaaðila er vænleg leið til að styrkja landsbyggðina. Forsenda þess eru tryggar samgöngur og öflug háhraðatenging um allt land. Þannig verður súrefni hleypt í byggðir landsins með auknu athafnafrelsi, aukinni samkeppni og nýjum og arðbærum störfum.
Góður ásetningur og tvískinnungur
Ég hef áður haldið því fram á þessum stað að byggðastefna sem fylgt hefur verið síðustu áratugi sé dæmi um hvernig leiðin til glötunar er oft vörðuð góðum ásetningi, en einnig tvískinnungi. Stjórnmálamaður sem í öðru orðinu segist í baráttu fyrir öflugri landsbyggð en krefst í hinu orðinu stóraukinna álaga á sjávarútveg er ekki samkvæmur sjálfum sér. Þeir eru til sem telja það eftirsóknarvert og jafnvel nauðsynlegt að tvöfalda virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og draga þar með úr samkeppnihæfni hennar við önnur lönd. Þeir hinir sömu halda síðan hástemmdar ræður um hve mikilvæg ferðaþjónustan er og hve uppbygging hennar hefur skipt miklu fyrir dreifðar byggðir landsins.
Hófsemd í skattamálum og einfalt regluverk ýtir undir nýsköpun og styrkir lítil og meðalstór fyrirtæki – ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur ekki síður á landsbyggðinni. Færa má sterk rök fyrir því að flókið regluverk og miklar álögur leggist þyngra á fyrirtæki á landsbyggðinni en þau sem starfa á höfuðborgarsvæðinu, þar sem allt stjórnkerfið er staðsett og flestar stofnanir ríkisins.
Ný byggðastefna verður ekki mörkuð án þess að hafa það að leiðarljósi að ein meginforsenda lífvænlegrar byggðar er arðsamur sjávarútvegur og skilvirkur og frjáls landbúnaður. Byggðastefna sem miðar að því að efla byggðir landsins getur ekki falist í ofurskattheimtu á sjávarútveg og opinberri ofstjórn í landbúnaði, þar sem dugmiklum bændum er haldið niðri, eða gera samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar lakari.
Kannski er einfaldast að lýsa skynsamlegri byggðastefnu með eftirfarandi hætti:
Byggðastefna framtíðarinnar felst fyrst og síðast í því að draga úr opinberum afskiptum og áhrifum stjórnmálamanna og embættismanna á daglegt líf almennings – að tryggja valfrelsi borgaranna til starfa og búsetu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2018.