Tollvörðum fjölgað um 20 á síðustu árum
'}}

„Ef við skoðum ríkissjóð í heild myndum við spara með rafrænum samskiptum um 500 milljónir á ári,” sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um um tollgæslumál. Málshefjandi var Þorsteinn Sæmundsson.

Vísaði Bjarni þar til þess að burðargjalda ríkisins, en hjá Innheimtumanni ríkissjóðs, einum og sér, eru burðargjöld vegna álagningar  um 75 milljónir á ári.

Bjarni sagði að tollvörðum hefði á síðustu tveimur árum fjölgað úr 102 í 122.

„Það þarf ávallt að skilgreina æskilegan fjölda starfsmanna út frá þeim viðfangsefnum sem fengist er við hverju sinni. Þar skiptir sérhæfing í takt við breyttar þarfir einstaklinga og atvinnulífs miklu máli. Af því leiðir að það verður seint línulegt samband milli aukinna umsvifa embættis tollstjóra og fjölda tollvarða,“ sagði Bjarni

Hann sagði umsvif embættis tollstjóra hafa aukist verulega, ekki síst vegna fleiri ferðamanna og aukinna vöruflutninga vegna netverslunar.

Bjarni sagði að unnið væri að skipulagsbreytingum hjá tollstjóra sem eigi að taka gildi um miðjan september næstkomandi.

„Þær munu leiða til aukinnar sérhæfingar og skilvirkara tolleftirlits í takt við breytta viðskiptahætti. Meginmarkmiðið ekki sparnaður heldur betri nýting fjármuna og mannafla. Tolleftirlit mun því í auknum mæli byggjast á áhættustjórnun og skilgreindum viðurkenndum vinnuferlum,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að efla þyrfti starfsemi eftirlitsstofnana á landamærum, bæði hjá tollstjóra og hjá lögreglu.

Þegar hafa borist sameiginlegar tillögur frá embætti tollstjóra, ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurnesjum í þessa veru,“ sagði hann og bætti við:

„Þær tillögur snúa einkum að eftirliti með för manna yfir íslenskt yfirráðasvæði. Þær þarf að gaumgæfa vandlega, m.a. með það fyrir augum að tryggja að framkvæmd þeirra verði skilvirk og þær verði sem minnst íþyngjandi fyrir þá sem hingað koma.“

Hann sagði tillögurnar byggja á mikilvægri reynslu annarra þjóða og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.

„Til að hrinda þeim í framkvæmd þarf að tryggja fjárheimildir og munu merki þess sjást í næstu fjármálaáætlun sem verður kynnt hér innan skamms“, sagði Bjarni.

Hann sagði samstarf embættis tollstjóra og lögreglu mjög gott og fagnaði því sérstaklega.

„Á grundvelli þessa góða samstarfs er m.a. til skoðunar að tollstjóri, ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sameinist í framtíðinni í sameiginlegt húsnæði.

Ef það tekst mun samstarf þessara mikilvægu stofnana án efa eflast enn frekar. Þar að auki mun slík sameining  auka möguleika á sameiginlegum innkaupum og samnýtingu nauðsynlegs tækjabúnaðar til hagræðis fyrir alla aðila máls“, sagði ráðherra.

Hann sagði árangur við innheimtu skatta og annarra opinberra gjalda ágætan, en að hann sveiflist gjarnan í takt við efnahagsástand á hverjum tíma.

„Til að viðhalda góðum innheimtuárangri hefur ráðuneytið og embætti tollstjóra lagt ríka áherslu á að einfalda innheimtuna frekar, gera hana skilvirkari og skýrari í augum almennings auk þess sem gæta þarf að að jafnræði milli skattborgaranna.

Áherslur ráðuneytisins í innheimtu má m.a. finna í stefnumótun málefnasviða fjármálaáætlunar 2018–2022 þar sem sett voru fram skýr metnaðarfull markmið,“ sagði Bjarni við umræðuna í dag.

Hana má alla finna hér.