Í tilefni af vantrauststillögu á dómsmálaráðherra
'}}

Nú stendur yfir umræða á Alþingi um vantrauststillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata, Logi Einarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Andri Thorsson, Björn Leví Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Halldóra Mogensen, Guðjón S. Brjánsson, Smári McCarthy og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, lögðu fram í gærkvöldi á Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra.

Tillagan er tilkomin vegna hins svokallaða Landsréttarmáls og í ljósi hennar er mikilvægt að halda eftirfarandi staðreyndum og þáttum málsins til haga:

  • Alþingi samþykkti í heild sinni tillögur ráðherra um skipan dómara í Landsrétti þann 1. júní 2017.
  • Tveir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt höfðuðu í framhaldinu mál á hendur íslenska ríkinu og óska þar eftir ógildingu á skipun dómara við Landsrétt. Kröfu um ógildingu skipananna var hafnað á báðum dómstigum og skaðabótakröfu einnig. Umsækjendunum voru hins vegar dæmdar miskabætur upp á 700 þúsund kr. þar sem það var metið sem svo að ákvörðun ráðherra hefði mögulega getað bitnað á orðspori mannanna. Annar þeirra er hins vegar orðinn héraðsdómari í dag svo ljóst er að mannorð viðkomandi hefur hvergi beðið hnekki. Þvert á móti er hann í dag orðinn einn af æðstu trúnaðarmönnum dómskerfisins.
  • Héraðsdómur og Hæstiréttur eru samhljóða í niðurstöðu sinni um embættisfærslur ráðherra við tillögugerð sína – þ.e. að ráðherra hafi ekki rannsakað umsækjendur nægilega áður en hún gerði tillögu til Alþingis. Hvergi er sagt skýrt í lögum hvað telst nægileg rannsókn.
  • Það liggur þó fyrir að ráðherra framkvæmdi viðamikla rannsókn á umsóknum, andmælum, umsögn dómnefndar, vægi og stigagjöf dómnefndar, mat sjónarmið ráðgjafa innan og utan stjórnarráðsins, lög reglur og lagasjónarmið, sjónarmið alþingismanna, formanns dómnefndar og fleira. Til þess hafði ráðherra tæpar tvær vikur frá 19. – 29. maí 2017. Alþingi hafði hins vegar ótakmarkaðan tíma til að rannsaka málið og fara yfir það. Tillögur ráðherra voru samþykktar í heild sinni 1. júní 2017 – þremur dögum eftir að þingið fékk þær í hendur.
  • Ráðherra átti samtal við formenn stjórnmálaflokka á Alþingi áður en tillagan var lögð fram vorið 2017 og varð þá ljóst að tillögur hæfnisnefndar yrðu ekki samþykktar í þinginu, m.a. vegna kynjahalla.
  • Aldrei fyrr í sögunni hefur jafn mikilvæg stofnun verið sett á laggirnar með eins jöfnu kynjahlutfalli.
  • Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á málinu og hefur frá því að Alþingi samþykkti tillögur ráðherra um skipan dómara í Landsrétt farið í gegnum þingkosningar þar sem hún hlaut næstflest atkvæði á landsvísu sem oddviti Reykjavíkur suður.
  • Ráðherra brást við dómi Hæstaréttar strax og sagðist vilja setja reglur um málsmeðferð er lúta að rannsókn ráðherra í ljósi dómsniðurstöðunnar ásamt því að kalla eftir samráði við þingmenn um hvort breyta þurfi lögum um skipan dómara.
  • Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók málið til umfjöllunar og óskaði dómsmálaráðherra þá eftir því að koma á opinn fund nefndarinnar til að ræða ítarlega embættisfærslur sínar – í beinni útsendingu.
  • Umboðsmaður Alþingis sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf 5. mars sl. þess efnis að hann teldi ekki ástæðu til að rannsaka embættisfærslur ráðherra. Komst Umboðsmaður m.a. að því í bréfinu að réttmætisreglan hafi ekki verið brotin en margoft hefur komið fram að ráðherra hafi leitað eftir ráðgjöf sérfræðinga bæði innan ráðuneytis og utan.
  • Búið er að láta reyna á hæfi eins þess dómara sem Alþingi samþykkti að skipa við Landsrétt og hafa þrír dómarar Landsréttar úrskurðað um að dómarinn sé hæfur til að gegna embætti dómara. Búið er að áfrýja þeim úrskurði til Hæstaréttar sem ekki hefur enn tekið málið til afgreiðslu.
  • Ráðherra hefur svarað öllu um málið, hvort sem er í fjölmiðlum eða í umræðum á þingi, þ.m.t. opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í beinni útsendingu. Hún hefur jafnframt útskýrt stöðuna sem hún var í sl. vor og hvernig hún vann í góðri trú og lögum samkvæmt að gerð þeirra tillagna sem Alþingi samþykkti í heild sinni.

Umræðuna alla á Alþingi má finna hér.