Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
„Þegar menn skoða stöðugleikaskilyrðin, skoða stöðugleikaskilyrðin, stöðugleikasamningana, þá er ekki annað hægt að gera en að segja bravó. Þetta gekk hundrað prósent upp. Þrýstingur á krónuna var enginn. Verkefnið var til þess ætlað að draga úr gjaldeyrisójöfnuði sem var hætta á að myndaðist við uppgjör gömlu slitabúanna. Það tókst hundrað prósent,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í dag við óundirbúinni fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um söluferlið á Arion banka.
„Það er ekkert pukur og það er ekkert fúsk. Háttvirtur þingmaður sat í ríkisstjórninni sem gerði kaupréttinn við Kaupþing á sínum tíma. Hún kannast bara ekki við það,“ sagði ráðherra þegar þingmaðurinn sagði söluferlið óljóst og að mikilvægt væri að hætta pukri og fúski varðandi málsmeðferðina.
Bjarni sagði að stöðugleikaframlögin hafi á sínum tíma verið metin upp á rétt um 380 milljarða króna og að í dag séu þau metin á um 74 milljarða umfram það sem þá var. Sagði ráðherra að ef útboðið sem nú væri framundan gengi vel gæti ríkið átt upp í erminni aðra 20 milljarða frá Kaupþingi.
Nánar má lesa um málið á vef Alþingis hér og eins í frétt sem birtist á mbl.is í dag hér.