Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Mikilvægt er að standa vörð um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og tryggja að sú lýðræðislega hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórnar, að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins, endurspegli á virkan hátt vilja íbúanna,“ segir í greinargerð með frumvarpi Jóns Gunnarssonar og tíu annarra þingmanna um að breyta ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum, en mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.
Frumvarpið kveður á um að sveitarfélög á Íslandi fái aukna sjálfstjórn við að ákveða fjölda fulltrúa með því að ákvæðum núgildandi laga verði breytt þannig fjöldi fulltrúa aukist ekki lengur sjálfkrafa. Í sveitarfélögum með 2.000 eða færri íbúa verði fjöldinn áfram ýmist 5 eða 7.
Í sveitarfélögum með fleiri en 2.000 íbúa verði fjöldinn að lágmarki 7, en að öðru leyti verði sveitarfélögum frjálst að ákveða sjálf fjölda fulltrúa í sveitarstjórn og skuli fjöldinn tilgreindur í samþykktum um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Í greinargerðinni segir jafnframt: „Verði frumvarpið að lögum verður sveitarfélagi aldrei skylt að fjölga fulltrúum í sveitarstjórn þótt íbúafjöldi taki breytingum. Tekjur sveitarfélaga og svigrúm til að nýta þær eru lykilþættir þegar litið er til þess hvað sveitarfélögin geta tekið sér fyrir hendur sjálf, þ.e. að eigin frumkvæði, eins og t.d. að ákvarða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á hvort sveitarfélög fjölgi fulltrúum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eður ei og fjárhagsleg áhrif ákvæða frumvarpsins á ríkissjóð eru engin.“
Hægt er að lesa frumvarpið í heild sinni hér og að fylgjast með umræðunni um málið í dag á Alþingi hér.