Málverk af Davíð Oddssyni í Valhöll
'}}

Nýtt málverk af Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, var kynnt með viðhöfn í Valhöll í dag að viðstöddu fjölmenni. Það voru sonardætur Davíðs, Ástríður og Dagný Þorsteinsdætur, sem afhjúpuðu myndina.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk Stephen Lárus, einn fremsta portrettmálara landsins, til þess að gera myndina af Davíð, en gestir við athöfnina luku miklu lofsorði á listaverkið. Hún þótti bæði fanga svip hans og skaphöfn, en jafnframt bregða upp svipmyndum af sögulegum ferli hans á hugvitsamlegan hátt .

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokkins og forsætisráðherra, sagði við þetta tækifæri að allir þekktu þá umbyltingu á þjóðlífi og hugarfari, sem Davíð hefði áorkað í forystustörfum fyrir land og þjóð, og rakti feril hans. „Davíð er sigursælasti forystumaður flokksins frá upphafi, leiddi flokkinn þrisvar sinnum í röð til sigurs í borgarstjórnarkosningum og fjórum sinnum í röð til sigurs í alþingiskosningum, en hann er jafnframt sá maður, sem lengst allra hefur gegnt embætti forsætisráðherra Íslands, í rúm 13 ár samfellt. Það verður seint jafnað.“

Davíð Oddsson sagði nokkur orð að því loknu og þakkaði sér sýndan heiður.  Hann lofaði handbragð listamannsins og bætti við að það hlakkaði örugglega í gömlum andstæðingum enda hefðu margir þráð sjá hann hengdan eða afhjúpaðan og fá að vera viðstaddur er hvorutveggja væri gert.

Hefð er fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn láti mála myndir af fyrrverandi formönnum flokksins, en þær eru hafðar á heiðursstað í Bókastofu Valhallar, höfuðstöðva flokksins. Þar eru fyrir myndir af Jóni Þorlákssyni, Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni eldri, Jóhanni Hafstein, Geir Hallgrímssyni og Þorsteini Pálssyni.